Sindri og félagar á samfélagsmiðlum

Félagarnir í Amsterdam, Hafþór Logi Hlynsson, Viktor Ingi Sigurðsson og …
Félagarnir í Amsterdam, Hafþór Logi Hlynsson, Viktor Ingi Sigurðsson og Sindri Þór Stefánsson. Snapchat/Instagram

Hafþór Logi Hlynsson, sem hlotið hefur fjölda refsidóma fyrir fíkniefnabrot á síðustu árum, birti í gær mynd af sér á samfélagsmiðlum ásamt Sindra Þór Stefánssyni og Viktori Inga Sigurðssyni úti á götu í Amsterdam. Myndin er merkt #teamsindri. Líkt og fram kom á mbl.is í gærkvöldi var Sindri, sem hafði verið á flótta frá því aðfaranótt þriðjudags, handtekinn í Amsterdam í gær. Vísir birti fyrstu fréttina af handtöku Sindra í gær en RÚV birti fyrst frétt af myndinni og fylgdu Fréttablaðið og Vísir í kjölfarið.

Hafþór Logi er með fjölmarga dóma á bakinu þar á meðal dóm frá árinu 2012 fyrir innflutning á tæpum 9 kg af kókaíni. Sá dómur var númer 15 hjá Hafþóri Loga sem er þrítugur að aldri.

Sindri Þór var handtekinn í miðborg Amsterdam í Hollandi í gær. Þetta staðfesti Rob van der Veen, talsmaður lögreglunnar í Amsterdam, í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

Hann sagði lögregluna í Amsterdam ekki vilja tjá sig frekar um kringumstæður handtökunnar að svo stöddu, en sagði jafnframt að málið væri nú hjá héraðssaksóknara í Amsterdam og yrði haft samband við íslensk yfirvöld um framhaldið.

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, staðfesti einnig handtöku Sindra Þórs, en sagðist ekki geta tjáð sig um næstu skref þegar mbl.is ræddi við hann seint í gærkvöldi.

Sindri á Facebook-síðu Viktors í síðustu viku.
Sindri á Facebook-síðu Viktors í síðustu viku. Facebook-síða Viktors Inga

Lögmaður Sindra Þórs, Þorgils Þorgilsson, sagði við mbl.is í gærkvöldi að hann hefði ekki heyrt af handtökunni annað en það sem komið hefði fram í fjölmiðlum.

Sindri Þór laumaðist út um glugga aðfaranótt þriðjudags á meðan hann var vistaður í fangelsinu á Sogni. Áður en það uppgötvaðist komst hann um borð í flugvél Icelandair til Stokkhólms í Svíþjóð.

Instagram
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert