Sindri væntanlegur á næstu dögum

Sindri var handtekinn í miðborg Amsterdam í gær.
Sindri var handtekinn í miðborg Amsterdam í gær.

Búast má við því að strokufanginn, Sindri Þór Stefánsson, sem handtekinn var í miðborg Amsterdam í Hollandi í gær, komi til Íslands á næstu dögum. Þetta segir Þorgils Þorgilsson, lögmaður Sindra. Hann vonast til að framsalsferlið verði ekki lengra en vika.

Þorgils ræddi örstutt við skjólstæðing sinn eftir handtökuna í gær. Hann segist þó enn ekki vita hvort Sindri hafi gefið sig fram við lögreglu eða hvort hann var handtekinn gegn vilja sínum. En Þorgils sagði í samtali við RÚV fyrir helgi að Sindri vildi síst verða handtekinn í öðru landi.

Hann segir að nú fari í gang ákveðið diplómatískt ferli þar sem farið er eftir evrópskum framsalssamningi. „Það er reyndar mjög misjafnt eftir löndum hve langan tíma það tekur. Það getur tekið mjög stuttan tíma í Hollandi ef allt gengur vel. Ég veit ekki hversu langan tíma þetta mun taka en ég er að gera mér vonir um einhverja daga til kannski viku.“

Þorgils segir óráðið hvort hann fari út til Sindra, en það fer eftir aðstæðum. Hann segir mikið óvissuástand vera í gangi núna.

Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs, vonast til að framsalsferlið taki …
Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs, vonast til að framsalsferlið taki skamman tíma.

Spurður um mynd sem Hafþór Logi Hlynsson, vinur Sindra, birti á Instagram í gær undir myllumerkinu #teamsindri, segist hann bara hafa séð hana í fjölmiðlum. Hann viti því ekki hvort upplýsingar á samfélagsmiðlum hafi leitt lögreglu á spor Sindra. Myndin sýnir Hafþór og Sindra við þriðja mann, Viktor Inga Sigurðsson, úti á götu í Amsterdam.

Sindri strauk úr fangelsinu á Sogni aðfaranótt þriðjudags í síðustu viku og komst með flugi til Svíþjóðar áður en upp komst um strok hans. Hann virðist hafa ferðast þaðan til Amsterdam.

Sindri sendi Fréttablaðinu yfirlýsingu í síðustu viku og sagðist hafa talið að hann væri frjáls ferða sinna þegar hann yfirgaf Sogn og vísaði til þess að gæsluvarðhaldsúrskurður hefði ekki verið í gildi á þeim tíma.

Hann var leidd­ur fyr­ir dóm­ara á mánudag í síðustu viku, dag­inn sem úr­sk­urður­inn féll úr gildi, en dóm­ari tók sér sól­ar­hringsfrest til að ákveða sig. Sindri sagðist í kjöl­farið hafa verið upp­lýst­ur um að í raun væri hann frjáls ferða sinna, en að hann yrði hand­tek­inn ef hann yf­ir­gæfi fang­elsið án skýr­inga.

Sagðist hann jafnframt geta verið á flótta eins lengi og hann vildi. Hann væri kominn í samband við fólk sem væri tilbúið að skjóta skjólshúsi yfir hann, útvega honum farartæki peninga og fölsuð skilríki. Hann vildi hins vegar frekar takast á við málið á Íslandi og ætlaði því að koma heim fljótlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert