Á ekki rétt á 5 milljón kr. bótum

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Þórður

Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að kona sem varð fyrir alvarlegum kynferðisbrotum þegar hún var barn eigi ekki rétt á 4,9 milljóna króna bótagreiðslu sem hún sótti um samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota. 

Varanleg örorka konunnar, sem er fædd árið 1995, var metin 20%. Maðurinn var sakfelldur fyrir brotin með dómi Hæstaréttar árið 2014 og konunni þá dæmar 3,5 milljónir kr. í miskabætur.

Konan sótti svo um bætur samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota (lög nr. 69/1995) á grundvelli matsgerðar um þann varanlegan miska og örorku sem hún hafði hlotið vegna brota mannsins á árunum 2008-2010.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að konan hafi fengið greitt sem nam hámarksfjárhæð bóta samkvæmt lögunum en höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu frekari bóta.

Laut ágreiningurinn að því hvort miða ætti ákvörðun bóta konunnar við verknaðarstund eða við síðara tímamark þannig að ákvæðum umræddra bótalaga yrði beitt að teknu tilliti til breytinga sem gerðar höfðu verið á hámarksfjárhæðum þeirra með lögum nr. 54/2012.

Héraðsdómur Reykjavíkur taldi að taka yrði mið af almennum lagaskilareglum við úrlausn málsins og miða fjárhæð bóta konunnar við þá hámarksfjárhæð sem gilt hefði samkvæmt lögum nr. 69/1995 fyrir gildistöku laga nr. 54/2012. Ríkið var því sýknað af kröfum konunnar í héraði.

Hæstiréttur staðfesti síðan í síðustu viku héraðsdóm með þeirri áréttingu að ekki hefði verið tekið fram í lögum nr. 54/2012 að hækkun bótafjárhæða skyldi markað gildissvið með öðrum hætti en leiddi af almennum lagaskilareglum. 

„Ekki var tekið fram í lögum nr. 54/2012, um breytingu á lögum nr. 69/1995, að hækkun bótafjárhæða, samkvæmt 7. gr. þeirra, skyldi markað gildissvið með öðrum hætti en leiðir af almennum lagaskilareglum. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans,“ segir í dómi Hæstaréttar. 

Dómstóllinn taldi rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður og gjafsóknarkostnaður konunnar fyrir Hæstarétti skyldi greiðast úr ríkissjóði, samtals 600.000 kr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert