Frekar óraunverulegt og skrítið

Naomi Grosman er fædd í Toronto og alin upp á …
Naomi Grosman er fædd í Toronto og alin upp á Íslandi. Hún flutti aftur til Toronto fyrir átta árum og þar starfar hún sem blaðamaður.

„Ég var niðri í bæ í erindagjörðum við sömu götu og á sama tíma og árásin var gerð,“ segir Naomi Grosman, sem er íslensk en búsett í Toronto. Hún segir Yonge-stræti mjög langt og því hafi hún verið í töluverði fjarlægð frá þeim stað þar sem ekið var á vegfarendur í gær með þeim afleiðingum að tíu lágu í valnum.

Hún hjólaði heim á leið og tók þá eftir að lögreglumenn og lögreglubílar voru víðar en vanalega. Það var þó ekki fyrr en hún kom heim til sín að hún frétti af því að maður hefði ekið sendibílnum á mannfjöldann í Yonge-stræti.

Yonge-stræti er fjölfarin gata í nágrenni miðborgar Toronto. „Ég þekki þetta hverfi ágætlega,“ segir Naomi í samtali við mbl.is. „Fyrir nokkrum árum fór ég oft til læknis rétt hjá þar sem árásin var gerð. Ég sá fréttamyndir af vettvangi og hugsaði þá að þetta væri beint fyrir utan þar sem ég fór til læknis.“

Frá vettvangi árásarinnar í Yonge-stræti.
Frá vettvangi árásarinnar í Yonge-stræti. AFP

Toronto talin örugg borg

Naomi fæddist í Toronto, ólst upp á Íslandi og fluttu svo fyrir átta árum aftur til kanadísku borgarinnar þar sem hún starfar sem blaðamaður. Hún býr í nokkurri fjarlægð frá Yonge-Street. „Þetta er frekar óraunverulegt og skrítið,“ segir hún um líðan sína eftir árásina. Hún segir Toronto talda örugga borg. Stundum heyrist í fréttum af svona árásum annars staðar í heiminum en það sé skrítin tilfinning að slíkt hafi gerst í Toronto.

Hún segist hjóla mikið um borgina og hafi gert það í gær. „Maður er sorgmæddur vegna fólksins sem dó og þeirra fjölskyldum. En ég upplifi það ekki beint þannig að ég sé hrædd.“

Mun litlu breyta

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði á blaðamannafundi í dag að hin „glórulausa árás“ mætti ekki verða til þess að Kanadamenn létu óttann stjórna sér. Hann vill að landið verði áfram opið og frjálst og að staðið verði vörð um gildi þess. 

Naomi tekur í sama streng og segist ekki telja að samfélagið muni breytast við þessa árás. „Ég held að þetta muni ekki breyta miklu en á sama tíma er þetta atburður sem erfitt er að trúa að hafi gerst í Toronto.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert