Páll fyrstur Íslendinga í mark í Boston-maraþoninu

Páll Ingi Jóhannesson var fyrstur Íslendinga í mark í Boston-maraþoninu …
Páll Ingi Jóhannesson var fyrstur Íslendinga í mark í Boston-maraþoninu í síðustu viku. Ljósmynd/Aðsend

Páll Ingi Jóhannesson, sem búsettur er í Kaupmannahöfn, tók þátt í Boston-maraþoninu í Bandaríkjunum í síðustu viku og var fyrstur íslendinga í mark. Honum þykir þó ekki aðalmarkmiðið að vera fyrstur, en hann var með tímann 02:52:43.

Páll er 44 ára gamall en byrjaði ekki að hlaupa fyrr en fyrir 4 árum og hleypur nú um 100-130 kílómetra í hverri viku. Hann segir í samtali við mbl.is að hlaupið hafi gengið ágætlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður. „Það þurfti að bara að taka veðrinu eins og það var. Ég var með ákveðna taktík fyrir hlaupið út af veðrinu og tók mið af því. Síðustu sjö kílómetrana missti ég nú pínu hraða, en það var ágætt miðað við aðstæður.“ Þegar maraþonið fór af stað á mánudagsmorgun, var fjögurra stiga hiti og rigning. Á meðan hlaupinu stóð var mikill mótvindur eða 11-13 metrar á sekúndu.

Spurður um viðbrögð þátttakenda við veðrinu segir Páll Boston-maraþonið frekar stórt mál í maraþon-heiminum, sérstaklega fyrir Bandaríkjamenn. „Margir hafa lagt mikið á sig til þess að komast í maraþonið og svo stendur fólkið þarna í þessu veðri. Mér fannst fólkið heldur þögulla en ella hefði verið. Mér fannst fólkið í hlaupinu pínu í sjokki. Allir voru að reyna að halda í sér smá hita áður en þetta fór í gang.“

Að vera fyrstur Íslendinga í mark þykir Páli ekki sérstakt atriði. „Ég er með hlaupfélagsskap hér í Köben, NBRO Running, og mér finnst skemmtilegt í þeim félagsskap hversu mikið maður hleypur fyrir hver annan. Þannig að hlaup fyrir mér snýst ekki endilega um að vera á undan einhverjum. Hlauparar eru bara fólk sem er á sínu róli og mér finnst bara glæsilegt að fólk hafi klárað þetta hlaup.“

Páll hljóp við erfiðar aðstæður.
Páll hljóp við erfiðar aðstæður. Ljósmynd/Aðsend

Reykti pakka á dag

Páll segist hafa keypt hlaupaskóna 2012 en byrjaði ekki að hlaupa fyrr en tveimur árum síðar. „Þetta var þannig að ég er búinn að vera meira og minna í skrifstofuvinnu í mörg ár að vinna svona 60-70 tíma á viku. Svo gerðist það að einn gamall skólafélagi minn fékk heilablóðfall og ég var að verða fertugur. Þetta gaf mér innblástur til þess að taka mig aðeins á, hætta að reykja og byrja að hlaupa. Svo vindur þetta upp á sig þetta hlaup.“

„Fyrsta skrefið var að fá mér almennilegan hlaupafatnað. Annað skref var að kaupa púlsúr til þess að mæla árangurinn og þriðja skrefið var að ganga í þennan hlaupafélagsskap sem ég er í. Þessi félagsskapur opnaði bara þennan hlaupaheim fyrir mér,“ segir Páll.

Hann staðhæfir að allir geti bætt heilsufar sitt. „Ef ég get farið úr því að reykja pakka á dag og unnið 60-70 tíma á viku á skrifstofu yfir í að hlaupa maraþon, þá geta þetta allir.“

Aldrei of seint að bæta heilsuna

Hlauparinn segir fólk of spyrja sig hvað það eigi að gera til þess að bæta heilsuna. „Ég segi alltaf það sé betra að byrja í dag en á morgun. Það er auðveldara að byrja fertugur en fjörutíu og eins, auðveldara að byrja þegar maður er sextíu og tveggja en sextíu og þriggja.“

„Málið er það að ég er ekki endilega að segja að allir þurfi að fara að hlaupa 100 kílómetra á viku sko, en hins vegar þarf svo lítið til þess að verða heilbrigðari en maður er,“ bætir Páll við. „Það eru margir sem halda að það þurfi svo mikið til til þess að koma sér í form, að það þurfi að leggja allt líf sitt um. En líkaminn er svo þakklátur, það þarf svo lítið til að byrja þessa breytingu. Það er aldrei of seint að breyta til og þetta gerir svo mikið fyrir fólk,“ segir hann.

Vel að hlaupinu staðið

Samkvæmt Páli hafa Bandaríkjamenn mikla þekkingu á að halda svona stóra viðburði og segir maraþonið „mjög vel skipulagt og vel að þessu staðið þrátt fyrir erfiðar aðstæður.“ Hann segist einnig ánægður með áhorfendur. „Þeir voru frá öðrum eða þriðja kílómetra og alla leið í mark, rosalega góð stemning. Ég hef hlaupið í mörgum löndum og Bandaríkjamenn eru sérstaklega lifandi áhorfendur. Þeir líka tóku eftir því þegar hlauparar þurftu auka hvatningu og veittu þeim það.“

Hlaupahópur Páls hyggst sækja Ísland heim í sumar til þess að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu. „flestir í hópnum ætla að hlaupa hálfmaraþon, en ég er ekki sjálfur búinn að ákveða mig“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert