Reistur verður samrekinn leik- og grunnskóli

Skólabygging Kársnesskóla við Skólagerði í Kópavogi.
Skólabygging Kársnesskóla við Skólagerði í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til stendur að reisa samrekinn leik- og grunnskóla upp í 4. bekk við Skólagerði í Kópavogi í staðinn fyrir skólabyggingu Kársnesskóla sem þar hefur staðið allt frá árinu 1957 en til stendur að rífa eftir að mikil mygla fannst í henni. Fram kemur á vef Kópavogsbæjar að hönnun og bygging verði boðin út á næstu vikum.

„Starfshópur skipaður fulltrúum nemenda, skólans, stjórnsýslunnar og flokka í bæjarstjórn Kópavogs leggur til að ný bygging verði sveigjanleg þannig að hægt verði að breyta húsnæðinu með fyrirhafnarlitlum hætti í takt við breytingar á starfinu. Þá taki hönnun byggingarinnar mið af áherslu á útinám og auðvelt sé að byggja við hana ef íbúaþróun á Kársnesi kallar á það. Hópurinn var við störf í vetur og skilaði af sér skýrslu sem höfð verður til hliðsjónar við útboð verksins,“ segir enn fremur.

Fram kemur að ekki liggi fyrir nákvæmlega hvenær gamli skólinn verði rifinn en stefnt sé að því að því verði lokið í september. Þá segir að Kársnesskóli stendi fyrir kveðjuathöfn við gamla skólahúsið í tengslum við vorhátíð skólans 5. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert