Ákærður fyrir tvær árásir í miðbænum

Húsnæði embættis héraðssaksóknara.
Húsnæði embættis héraðssaksóknara. Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir tvær líkamsárásir í miðbæ Reykjavíkur fyrr á þessu ári. Er önnur árásin talin sérstaklega hættuleg en hin stórfelld.

Fyrri líkamsárásin sem ákært er fyrir átti sér stað fyrir utan skemmtistaðinn D-10 í Hafnarstræti í janúar. Er maðurinn ákærður fyrir að hafa slegið annan mann ítrekað með krepptum hnefa í andlitið þannig að hann hlaut tannbrot úr sex tönnum, skurð undir neðra augnlok, glóðarauga og brot í botni augntóftar. Rifnuðu ystu lög sjónhimnu þess sem varð fyrir árásinni og hlaut hann varanlegar sjóntruflanir.

Seinni árásin sem ákært er fyrir var gerð í mars á Ingólfstorgi. Er maðurinn ákærður fyrir að hafa ráðist að öðrum manni, slegið hann í andlitið og eftir að fórnarlambið féll í jörðina sparkað nokkrum sinnum í andlit hans og traðkað á höfði hans nokkrum sinnum. Orsakaði þetta meðal annars talsverða áverka og brotið nefbein.

Í fyrra málinu fer fórnarlambið fram á 3,3 milljónir í miskabætur en í því síðara er farið fram á 2 milljónir í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert