Aukin framlög vegna ástandsins í Sýrlandi

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákveðið hefur verið að bæta 75 milljónum á næstu tveimur árum við framlög Íslands við þær 800 milljónir sem áður hafði verið heitið vegna ástandsins í Sýrlandi. Á fyrstu ráðstefnunni um málefni Sýrlands í fyrravor tilkynnti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að árlegt framlag Íslands yrði 200 milljónir króna á ári fram til ársins 2020. 

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Önnur Sýrlandsráðstefnan á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins stendur nú yfir í Brussel. Þar áréttaði Guðlaugur Þór að framlag Íslands yrði 200 milljónir á þessu ári, myndi hækka í 225 milljónir árið 2019 og verða 250 milljónir árið 2020. Árið 2017 voru framlögin 200 milljónir króna. 

Ráðherra ítrekaði fordæmingu Íslendinga á notkun efnavopna og sagði að Ísland myndi halda áfram að styðja allar umleitanir að pólitískum lausnum. „Sýrlenska þjóðin hefur búið við þjáningar í sjö ár og horft á hundruð þúsunda falla í valinn,“ sagði Guðlaugur Þór meðal annars á ráðstefnunni fyrr í dag.

„Við skorum á öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að rísa undir áskoruninni og finna leiðir til lausnar,“ bætti ráðherra við og sagði að Íslendingar væru talsmenn fyrir friði, virðingu og von.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert