Gæslunni gert að greiða milljónir

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Landhelgisgæslu Íslands til þess að greiða Ómari Antonssyni rúmar 5 milljónir króna auk dráttarvaxta og þrjár milljónir króna í málskostnað vegna leigu á landi undir ratsjárstöð í landi jarðarinnar Horns við Höfn í Hornafirði.

Málið nær aftur til ársins 1953 þegar þáverandi eigendur jarðarinnar leigðu íslenska ríkinu land undir ratsjárstöð bandaríska hersins í Stokksnesi. Árið 1987 sömdu íslensk og bandarísk stjórnvöld um að Íslendingar tækju yfir rekstur ratsjárstöðva varnarliðsins á Íslandi.

Landhelgisgæslan tók síðar yfir flestar umræddar skuldbindingar. Árið 2016 tilkynnti hún Ómari einhliða uppsögn á hluta af samningnum frá 1953. Vildi Gæslan minnka það land sem leigt væri. Héraðsdómur dæmdi hins vegar að það væri óheimilt samkvæmt samningnum.

Bent var á af hálfu Gæslunnar að Ómar hefði nýtt sér landið með ýmsum hætti. Meðal annars tekið gjald af ferðamönnum fyrir að fara um það og meinað starfsmönnum hennar að fara um það endurgjaldslaust. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að það gæfi hugsanlega tilefni til sjálfstæðra aðgerða, til dæmis skaðabótakröfu, en breytti ekki niðurstöðu málsins.

Gæslan var hins vegar sýknuð af kröfu maka Ómars, Kristínar Gísladóttur, á þeim forsendum að Ómar væri einn skráður þinglýstur eigandi jarðarinnar og var kröfu hennar því vísað frá dómi. Var henni gert að greiða Gæslunni 50 þúsund krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert