Múrað um miðja nótt

Múrað í Hvalfjarðargöngunum.
Múrað í Hvalfjarðargöngunum. Spölur

Það er langt frá að vera hvunndagsviðburður að sjá múrara að störfum í Hvalfjarðargöngum og það um miðja nótt.

Óvenjulegt er líka að lagfæra þurfi skemmdir eftir umferðaróhapp með múrverki en undir Hvalfirði er bara svo margt sem er öðruvísi en fólk á að venjast, segir á vef Spalar í nótt.

Magnús og Ásgeir, múrarar á Akranesi, hrærðu steypu og fylltu af kappi í stóra skellu í steinkápu á vegg sunnarlega í Hvalfjarðargöngum í nótt. Þeir hófu verkið í fyrrinótt og luku því í nótt. Þannig voru lagfærðar skemmdir sem urðu við það að fólksbíl var ekið á talsverðum hraða á vegginn eftir að bílstjórinn sofnaði undir stýri. Hann slapp ómeiddur en ökutækið fór illa og gangaveggurinn þurfti á múrverki að halda til að ná fyrra horfi og ásýnd.

Þetta er eitt af mörgum verkefnum sem unnið er að nótt eftir nótt núna í vikunni. Göngin hafa verið lokuð í tvær nætur og verða lokuð næstu þrjár frá miðnætti til klukkan sex að morgni.

Frá og með aðfaranótt laugardags 28. apríl verður opið að lokinni þessari vinnutörn sem reyndar er árviss viðburður en er venju fremur umfangsmikil í ár vegna allsherjarúttektar sem sérfræðingar verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækisins Mannvits annast á ástandi ganganna og tæknibúnaðar þeirra.

Ástandsskoðunin er í tilefni af eigendaskiptum Hvalfjarðarganga í haust. Í nótt sáust fleiri merki um það sem koma skal í eignarhaldi og rekstri ganganna. Gísli Eiríksson, forstöðumaður jarðgangaframkvæmda Vegagerðarinnar, mætti og fylgdist með því sem um var að vera í viðhaldi og kynnti sér tæknibúnað og fleira tilheyrandi starfseminni. Vegagerðin mun annast rekstur Hvalfjarðarganga fyrir hönd ríkisins þegar þar að kemur.

Gylfi R. Guðmundsson, þjónustustjóri Meitils ehf. á Grundartanga, var leiðsögumaður Gísla á vettvangi. Meitill er fyrirtæki á Grundartanga sem annast hefur reglubundna viðhalds- og tækniþjónustu við Hvalfjarðargöng frá upphafi. Gylfi R. og félagar þekkja tækjabúnað og ótal tæknileg rekstraratriði ganganna mun betur en lófa sína.

Vatn flæddi í stríðum straumum niður akbrautir og til botns í göngunum frá þvottabílum sem þokuðust meðfram veggjum beggja vegna akbrauta og hreinsuðu burt ryk og óhreinindi með háþrýstiþvotti. Sífellt undrunarefni er hve óhemjumikið berst af ryki inn í göngin eða verður þar til. Rykið safnast saman og þyrlast upp þegar bílar fara um og mynda sog í „rörinu“.

Ýmsar kenningar eru uppi um uppruna og samsetningu ryksins en þess er að vænta að úr því álitamáli verði skorið á vísindalegan hátt. Spölur fól Mannviti að rannsaka beinlínis og greina vegrykið í göngunum og sú athugun stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert