Þarf að mæta meintum geranda í dómsal

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms.
Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms. mbl.is/Hjörtur

Karlmaður sem ákærður var fyrir kynferðislega áreitni gagnvart stúlku, þegar hún var 18 ára, þarf ekki að víkja úr dómsal meðan stúlkan gefur vitnaskýrslu fyrir dómi. Landsréttur komst að þessari niðurstöðu í vikunni og felldi þar með úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra úr gildi, þar sem manninum var gert að víkja úr salnum.

Í málinu er manninum gefin að sök kynferðisleg áreitni gegn stúlkunni á heimili hans, sem er afskekkt, eins og komist er að orði í dóminum. Er honum einnig gefið að sök að hafa boðið stúlkunni áfengi í andstöðu við áfengislög.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að manninum bæri að víkja með hliðsjón af vottorði sálfræðings sem hafði rætt við stúlkuna. Þar komi fram að hún sýni algeng viðbrögð við alvarlegu áfalli þar sem komi fram greinileg breyting á skapi og atferli ásamt greinilegri forðun. Geti atburðir eða áreiti sem minni á áfallið, svo sem nærvera mannins, haft íþyngjandi áhrif á stúlkuna og framburð hennar.

Landsréttur tiltekur hins vegar að meginregla í sakamálaréttarfari sé að ákærði eigi þess kost að vera viðstaddur aðalmeðferð og önnur þinghöld í máli sem hefur verið höfðað gegn honum. Undantekningar þurfi að skýra þröngt og rík ástæða þarf að liggja fyrir til að vikið verði frá reglunni. Segir í úrskurði réttarins að ekki verði „skýrlega ráðið af vottorði sálfræðings að nærvera X gæti orðið brotaþola sérstaklega til íþyngingar þegar hún gæfi skýrslu fyrir dómi.“ Er úrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert