Alþingi samþykkti NPA-frumvarpið

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Eggert

Alþingi samþykkti í dag með 45 samhljóða atkvæðum lagafrumvarp félags- og jafnréttismálaráðherra um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Meðal þess sem frumvarpið felur í sér er að notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) verði lögfest til handa þeim sem hafa viðvarandi stuðnings- og þjónustuþarfir, en það þjónustuform byggist á hugmyndafræði um sjálfstætt líf fatlaðs fólks.

„Það er með mikilli ánægju að ég greiði hér atkvæði með frumvarpi þar sem er verið að gera mjög mikilvæga breytingu á þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, og bætti við að um sögulega stund sé að ræða.

„Ég held að þetta sé mjög góður dagur fyrir íslenskt samfélag.“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði gott að sjá fulltrúa þeirra sem frumvarpið valdeflir á pöllum Alþingis.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði frumvarpið dýrmætt. „Við mörgum blasir jafnvel nýtt líf,“ sagði hann.

Hann bætti við að um sé að ræða samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélag og sagðist treysta því að fullkomin sátt verði um kostnaðarskiptingu, þannig að hún tefji ekki framþróun verkefnisins.

„Þetta er viðkvæm, flókin og viðamikil lagasetning. Við treystum á að vel takist til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert