Andlát: Ketill Larsen

Ketill Larsen fjöllistamaður er látinn 84 ára að aldri. Frá því er greint á Facebook-síðu Ásatrúarfélagsins. „Ketill var ásatrúarfólki vel kunnur meðal annars af setu sinni á höfuðblótum félagsins,“ segir þar ennfremur.

Ketill vann við bústörf hjá móður sinni, Helgu Þórðardóttur, á býlinu Engi við Vesturlandsveg á árunum fram á þrítugsaldur og var við nám í Bændaskólanum á Hvanneyri. Ketill ákvað síðan að læra leiklist og var í tvö ár hjá Ævari Kvaran og þrjú ár í Leiklistarskóla Þjóðleikhússins.

Samhliða náminu vann Ketill hjá Æskulýðsráði Reykjavíkurborgar, seinna ÍTR, við leiðbeinandastörf og sumardvalir barna í Saltvík, Víðidal og víðar sem átti eftir að verða aðalstarfsvettvangur hans í næstum fjörutíu ár.

Ketill starfaði með Leikflokki Litla sviðsins í Þjóðleikhúsinu 1967-1968 og Leiksmiðjunni 1968-1969. Þá lék hann ýmis hlutverk í Þjóðleikhúsinu frá 1969. Hann var meðal annars einn leikenda hinnar frægu Inúk-sýningar sem sýnd var í nítján þjóðlöndum á árunum 1974-1978.

Ketill fékkst auk leiklistar mikið við myndlist og hélt ótal einkasýningar í Reykjavík og Kaupmannahöfn. 

Einna þekktastur var Ketill fyrir að leika jólasveina. Stjórnaði hann útiskemmtunum jólasveina í Reykjavík um langt árabil þegar kveikt var á Óslóartrénu á Austurvelli. Margir muna hann einnig í hlutverki Tóta trúðs á skemmtunum um land allt.

Þá samdi Ketill fjölda leikþátta fyrir börn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert