BÖKK-beltin slógu í gegn

BÖKK-belti. F.v. Thelma Mogensen, Ragnheiður Sóllilja Tindsdóttir, Klara Hjartardóttir, Jónína …
BÖKK-belti. F.v. Thelma Mogensen, Ragnheiður Sóllilja Tindsdóttir, Klara Hjartardóttir, Jónína Þórdís Karlsdóttir, Thelma Lóa Hermannsdóttir og Sunna Björk Karlsdóttir. Þóra Hrólfsdóttir er kennari þeirra í frumkvöðlafræðum.

Fyrirtækið BÖKK-belti var valið fyrirtæki ársins 2018 í samkeppni Ungra frumkvöðla, sem haldin var í Arion banka í vikunni.

Mun BÖKK-belti keppa fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni Ungra frumkvöðla, sem fram fer í Belgrad í Serbíu dagana 16.-19. júlí nk.

Fyrirtækið er í eigu sex stúlkna á lokaári á viðskiptafræðibraut Verzlunarskóla Íslands og hannar, framleiðir og selur nýtískuleg og framandi belti. Beltissylgjan er svipuð og á sætisbeltum flugvéla en ólin er gerð úr samskonar efni og notað er í hefðbundin sætisbelti bifreiða.

Sunna Björk Karlsdóttir er fjármálastjóri BÖKK-belta.

„Við sem erum á viðskiptafræðibraut tökum öll þátt í samkeppninni. BÖKK-belti framleiða hátískubelti sem eru e.t.v. svolítið framandi og öðruvísi,“ segir Sunna Björk sem segir hugmyndina og hönnunina á vörunni hafa verið sameiginlega og fyrirtækið sé þegar orðið að veruleika.

Seldust strax upp

„Öll beltin 50 sem við létum framleiða til að byrja með seldust upp innan 48 stunda og margir eru nú á biðlista. Þau voru í tveimur stærðum og fjórum litum, en sylgjurnar voru allar eins. Sökum þess hve vel þetta gekk höfum við ákveðið að framleiða nokkur í viðbót,“ segir Sunna Björk, en hægt er að nálgast fyrirtækið á Instagram undir bokk_belti og skoða myndir af vörunni.

20 fyrirtæki af 120 voru valin til að taka þátt í lokahófi og úrslitum Ungra frumkvöðla 2018. Í öðru sæti á eftir BÖKK-beltum varð Stjörnuhiminn og í þriðja sæti HAMINGJU-molar.

Fallegasti sýningarbásinn var hjá Iðunni. ENVÍ var með mestu nýsköpunina og VON-krúsir áttu söluhæstu vöruna.

Spiceland átti bestu viðskiptaáætlunina en öll ofantalin fyrirtæki koma úr Verzlunarskólanum.

Frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ var Ligno með bestu markaðs- og sölumálin, besta fjármálalausnin var frá Basar og besti sjó-bisnessinn hjá ULTHULE. Karpo frá Menntaskólanum við Sund hlaut viðurkenningu fyrir áherslu á sjálfbærni og besta matvælafyrirtækið var valið Mirikal frá Kvennaskólanum í Reykjavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert