Góð vitundarvakning í plokkinu

Atli Marel segist hafa séð mikinn mun á rusli í …
Atli Marel segist hafa séð mikinn mun á rusli í borgarlandinu eftir Dag jarðar. Hér hirða öflugir plokkarar rusl meðfram vegum þann dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Höfuðborgarbúar, sem og aðrir landsmenn hafa tekið plokkið með trompi undanfarið. Ruslastampar borgarinnar fara heldur ekki varhluta af þessum nýkviknaða áhuga á ruslasöfnun. Það þarf nefnilega ekki að ganga lengi eftir stígum borgarinnar, eða heimsækja margar stoppistöðvar áður en komið er að fullum ruslastampi, sem aldrei þessu vant inniheldur ekki bara hundaskítspoka.

Atli Marel Vokes, deildarstjóri vestursvæðis hjá skrifstofu reksturs og umhirðu hjá Reykjavíkurborg, segir starfsmenn borgarinnar taka plokkinu fagnandi. „Þetta er bara samvinnuverkefni og samfélagsleg ábyrgð, nokkuð sem að við öll tökum þátt í,“ segir hann.

Borgarstarfsmenn verði enda vissulega varir við plokkið. „Bæði með ruslastampana sem fólk er að setja í og svo líka með ruslapokana sem plokkararnir skilja eftir fyrir okkur að hirða. Við urðum sérstaklega mikið varir við þetta núna eftir helgina,“ segir Atli Marel, en Dagur jarðar var sl. sunnudag. „Það var mikið plokk þá.“

Dagur Eggertsson borgarstjóri hefur tekið þátt í plokkinu.
Dagur Eggertsson borgarstjóri hefur tekið þátt í plokkinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Taka rúntinn og hirða ruslapokana

Hann segir töluvert um að borgarstarfsmenn hafi verið beðnir um að koma og hirða poka. „Síðan var líka nokkuð um að fólk léti ekki vita, en skildi pokana eftir fyrir okkur á áberandi stöðum. Þannig að menn hafa verið að taka rúntinn til að hirða þetta upp.“

Atli Marel segir borgarstarfsmenn vissulega hafa þurft að losa ruslastampa oftar eftir að plokkið fór á flug, en hverfisstöðvar austanmegin borgarinnar hafa orðið aðeins meira varar við að fulla ruslastampa, en stöðvarnar vestan til í borginni. „Ég starfa vestanmegin og við höfum ekki orðið eins mikið varir við þetta hér.“ Segir hann ástæðuna mögulega þá að fólk sé að fara sjálft með pokana í Sorpu.  „En vissulega hafa menn aðeins þurft að auka tíðni losana í borgarlandinu.“

Hann segir borgarstarfsmenn engu að síður mjög sátta við plokkið. „Þetta er náttúrulega bara samvinnuverkefni allra borgarbúa að halda borginni hreinni,“ segir hann. „Það er góð vitundarvakning í þessu öllu saman.“

Vissulega sé það ein af skyldum borgarinnar að halda borginni hreinni. „Þetta bara er svo mikið og eins og kemur í ljós, að ásamt öllu öðru, þá höfum við ekki náð að sinna þessu sem skildi.“

Það fóru margir, ungir sem aldnir, út og plokkuðu á …
Það fóru margir, ungir sem aldnir, út og plokkuðu á Degi jarðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gefa plokkurum poka

Borgarstarfsmenn vilji gjarnan frá fólk skilji það eftir pokana að loknu plokki. „Við viljum alveg klárlega fá ábendingar um slíkt,“ segir hann. Nokkuð sé um að ábendingar berist símleiðis eða með tölvupósti, en best sé að fá þær sendar inn í gegnum vefslóðina www.reykjavik.is/abendingar „Það einfaldar málið ef menn eru ekki við símann.“

Atli Marel segir Reykjavíkurborg líka vera að gefa plokkurum poka. „Fólk hefur komið hingað í hverfisstöðvarnar og sótt poka áður en það fer að plokka og það er vel. Þannig að borgin tekur alveg virkan þátt í þessu.“

Spurður hvort að menn verði varir við að minna rusl sé nú á stöðum þar sem mikið var af því áður segir hann svo vera. „Við höfum séð stóran mun bæði á svæðum sem að borgin er að sinna og líka á svæðum sem heyra undir Vegagerðina. Við sjáum stóran mun á þessum svæðum.“ Munurinn hafi verið sérlega mikill eftir Dag jarðar um helgina. „En svo hefur plokkið teygt sig áfram inn í þessa viku og það er gott að þetta sé ekki bara bundið við einn dag, heldur að þetta sé svolítið áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert