Mikil fjölgun skráðra umferðarlagabrota

Hraðamyndavél sem sett hefur verið upp á gatnamótum Njarðargötu og …
Hraðamyndavél sem sett hefur verið upp á gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar myndaði fjölmörg umferðarlagabrot í mars. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Alls voru 1.311 umferðarlagabrot skráð í mars á höfuðborgarsvæðinu og fjölgar brotunum mikið milli mánaða. Í febrúar voru til að mynda skráð 907 brot og 790 brot í janúar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu um lykiltölur í afbrotafræði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki hafa fleiri umferðarlagabrot verið skráð í einum mánuði á höfuðborgarsvæðinu síðan í janúar 2016.  

Guðbrandur Sigurðsson, aðalvarðstjóri umferðardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að fjölgunina megi rekja til hraðamyndavélar sem sett hefur verið upp á gatnamótum Njarðargötu og Hringbrautar. Myndavélin nemur einnig ef ökumenn aka yfir á rauðu ljósi. „Mér finnst það liggja í augum uppi að það er uppsetning á þessari vél sem er nýkomin úr kvörðun og er farið að beita aftur,“ segir Guðbrandur í samtali við mbl.is.

Myndavélin er ein af þeim sem er færð á milli kassa á ýmsum gatnamótum borgarinnar. Inni í tölfræðinni eru einnig umferðarlagabrot sem myndavélabíll á vegum lögreglunnar nemur. Fjöldi umferðarlagabrota af hraðamyndavélum á hringveginum er hins vegar undanskilinn.

Fylgjast sérstaklega með notkun síma undir stýri í maí

Guðbrandur gerir ráð fyrir að maímánuður verði annasamur hjá umferðardeildinni, sérstaklega í ljósi þess að um mánaðamótin tekur ný reglu­gerð gildi um sekt­ir og önn­ur viður­lög fyr­ir um­ferðarlaga­brot.

„Við viljum vekja eins mikla athygli og kostur er á því að allar sektir eru að hækka 1. maí,“ segir Guðbrandur. Umferðardeildin mun fylgjast sérstaklega með notkun farsíma án handfrjáls búnaðar í maí, en sekt fyrir að tala í síma undir stýri án slíks búnaðar hækkar í 40.000 krónur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert