Segja drögin óásættanleg

Sjálfstætt starfandi ljósmæður í heimaþjónustu funduðu í kvöld um samningsdrög um fyrirkomulag þjónustunnar við Sjúkra­trygg­ingar Íslands sem unnin voru á fundi Sjúkratrygginga Íslands og fulltrúa ljósmæðra í dag.  

Í tilkynningu sem sjálfstætt starfandi ljósmæður sendu rétt fyrir miðnætti segir að niðurstaða fundarins var sú að drögin væru algjörlega óásættanleg.

„Í drögunum leggur heilbrigðisráðuneytið til skerðingu við þjónustu við sængurkonur til að unnt sé að hækka laun ljósmæðra og voru skilaboðin sú að ekki yrði sett meira fjármagn í þessa þjónustu,“ segir í tilkynningu. 

95 ljós­mæður sem sinnt hafa heimaþjón­ustu við sæng­ur­kon­ur lögðu niður störf á mánu­dag þar til gengið verði frá samn­ingi þeirra við Sjúkra­trygg­ing­ar Íslands.

„Sem málsvarar kvenna og nýfæddra barna þeirra geta ljósmæður ekki sætt sig við að þjónustan sé skert á þennan hátt og ekki sé unnt að tryggja öryggi þeirra á fyrstu sólahringum eftir fæðingu með þessu móti. Heimaþjónusta ljósmæðra er í lykilhlutverki til að tryggja heilsu nýfæddra barna og að koma í veg fyrir innlagnir á fyrstu dögum ævinnar,“ segir í tilkynningu. 

Allar líkur eru á því að Sjúkratryggingum Íslands verði tilkynnt í fyrramálið að samningsdrögin verði ekki samþykkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert