Ekki skylt að skrá leigutekjur

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sú krafa er ekki gerð til borgarfulltrúa í reglum borgarinnar um hagsmunaskráningu að þeir geti hagsmuna sinna og tekna í tengslum við útleigu fasteigna. Misjafnt er milli borgarfulltrúa hvernig þessari skráningu er háttað, en sumir þeirra nefna af sjálfsdáðum hvort þeir hafi leigutekjur.

Borgarfulltrúum er gert að tilkynna sérstaklega um fasteignir sínar sem þeir hafi ekki til nota fyrir sig og fjölskyldu sína. Ekki er gerð krafa um að upplýsingar um útleigu þessara fasteigna séu tilteknar undir þessum sama lið. Þó nefna sumir borgarfulltrúar að fasteignirnar leigi þær út.

Dagur B. Eggertsson, Samfylkingu, leigir kjallara í eigin fasteign til herrafataverslunarinnar Sturlu og getur útleigunnar. Hjálmar Sveinsson, Samfylkingu, getur sumarhúss í Stykkishólmi og útleigu þess yfir vetrartímann. Kristín Soffía Jónsdóttir, Samfylkingu, getur fasteignar en þar býr hún þó sjálf og hefur engan hluta hennar til útleigu.

S. Björn Blöndal, Bjartri framtíð, getur eignar við Laugaveg 141 en ekki er tekið fram að leigutekjur séu af eigninni. Líf Magneudóttir, Vinstri grænum, getur húss við Bræðraborgarstíg 22, en hún leigir báðar hæðir hússins út. Þess er ekki getið í hagsmunaskráningunni.

Aðrir borgarfulltrúar geta engra fasteigna undir þessum lið.

Í samtali við Morgunblaðið segir Líf að húseignin við Bræðraborgarstíg sé í tímabundinni langtímaleigu en hún muni sjálf flytjast í húsið þegar fram líði stundir.

S. Björn Blöndal segir að hann eigi eina eign við Laugaveg sem hafi að jafnaði verið í útleigu. „Það hafa verið stúdentar í henni og síðasta sumar leigði ég hana til ferðamanna í tíu daga eða svo. Nú er í íbúðinni heiðvirður leikskólakennari,“ segir hann. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert