„Ég veit þeir verða alveg að drepast“

Glenn Moyle, sem er með hettu númer 10, hefur æft …
Glenn Moyle, sem er með hettu númer 10, hefur æft sundpóló frá því hann var 11 ára gamall pjakkur heima á Nýja Sjálandi. Ljósmynd/Aðsend

Það eru ekki margir sem stunda sundpóló á Íslandi í dag, íþróttin var engu að síður fyrsta liðaíþróttinn sem Ísland keppti í á ólympíuleikum og var það árið 1936 í Berlín. Til er mynd af liðinu að æfa sig fyrir förina í vatni í Mosfellsdal.

„Þannig að íþróttin á sögulegar rætur á Íslandi,“ segir Nýsjálendingurinn Glenn Moyle sem þjálfar lið Ármanns. „Sundpóló hefur átt sínar hægðir og lægðir hér og um tíma voru fjögur lið að æfa. Síðan lagðist íþróttin í dvala en nú er áhuginn að vakna aftur.“

Um 40-50 manns æfa sundpóló hér á landi í dag og eru liðin tvö, Ármann og SH í Hafnarfirði, að reyna að auka áhuga á íþróttinni hér á landi. „Sundpóló er frábær íþrótt fyrir krakka,“ segir Glenn og kveður næsta skref vera að koma á fót sérstakri barnadeild. „Það krefst hins vegar tíma og þolinmæði,“ bætir hann við.

Tvö lið æfa sundpóló á Íslandi í dag, Ármann og …
Tvö lið æfa sundpóló á Íslandi í dag, Ármann og SH. Ljósmynd/Aðsend

Börn munu engu að síður vera meðal keppenda á sundpólómóti sem fer fram í Laugardalslaug dagana 24.-26. maí, en þá fá íslensku liðin tvö færi á að spreyta sig gegn sundpólóliðum frá Noregi, Svíþjóð, Sviss, Þýskalandi og Hollandi og er þetta annað árið sem mótið er haldið.

Langaði að sjá mestu harðjaxla Íslands keppa

Að þessu sinni er þó einnig skipulagður sérstakur góðgerðaleikur í sundpóló þar sem lið frá Mjölni og Granda 101 Crossfit mætast í lauginni. Sá leikur verður á laugardag og rennur allur ágóði af miðasölu til Reykjadals sem er að reyna að byggja upp betri útivistaraðstöðu fyrir börnin þar dvelja. Glenn segir enga í liðum Mjölnis og Granda æfa sundpóló, en þó leynist einhverjir fyrrverandi leikmenn í liðunum.

„Upphaflega var hugmyndin sú að koma á leik milli stjórnmálamanna og frægra einstaklinga, en það var svo erfitt að ná sambandi við suma þeirra. Þess vegna hafði ég samband við líkamsræktarstöðvarnar og þær voru alveg til,“ segir hann og bendir á að tímaritið Sports Illustrated hafi tilnefnd Sundpóló sem erfiðustu íþróttina.

Um 40-50 manns æfa sundpóló hér á landi í dag.
Um 40-50 manns æfa sundpóló hér á landi í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Þess vegna langaði mig líka að fá mestu harðjaxla Íslands til að keppa í góðgerðarskyni. Hjá Mjölni eru bardagamenn og þeir hjá Granda eru líka virkilega harðir af sér og seigir, þannig að það verður áhugavert að sjá hvernig fer.“

Glenn segir liðin vera búin að fá nokkrar æfingastundir í lauginni. „Ég veit samt að þeir verða alveg að drepast eftir þetta,“ segir Glenn og hlær. „Það góða er samt að þetta er bara til gamans gert og fyrir góðan málstað. Ef við getum öll gert eitthvað fyrir góðan málstað þá væri heimurinn betri.

Ég fór að heimsækja Reykjadal fyrir hálfum mánuði og þau veittu mér mikinn innblástur, þannig að ef við getum hjálpað þeim þá viljum við endilega gera það.“

Skellt var í grill við Laugardalslaugina þegar erlendu liðin tóku …
Skellt var í grill við Laugardalslaugina þegar erlendu liðin tóku þátt í sundpólómótinu hér á landi í fyrra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert