„Hann hefur aldrei byggt dúfnakofa“

Sigmar Vilhjálmsson og Daði Bjarnason, lögmaður hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur …
Sigmar Vilhjálmsson og Daði Bjarnason, lögmaður hans, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Arnþór

„Við höfum deilt frá því hann setti tvær sjónvarpsstöðvar á hausinn á korteri. Hann gleymdi bara að gera viðskiptaplan þá,“ sagði Skúli Gunnar Sigfússon, oft kenndur við Subway, við aðalmeðferð í máli Sjarms og Garms ehf. og Sigmars Vilhjálmssonar gegn Stemmu hf. fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Málið snýr að hugmynd um einhvers konar ferðaþjónustu við Hvolsvöll, sem nú í dag er Lava-setrið. Sigmar sagði fyrir dómi að Skúli hefði rætt við hann um verslunarmannahelgi 2013 þar sem hann vildi fá Sigmar í lið með sér vegna ferðaþjónustuverkefnis.

Rætt var við Skúla símleiðis en hann og Sigmar eiga báðir hlut í Sjarmi og Garmi ehf. en það félag á 36% hlut í Stemmu, sem Sigmar stefnir. Sigmar greindi frá því á Facebook í gærkvöldi að það væri mikill léttir að mæta Skúla loks fyrir dómstólum eftir þriggja ára baráttu.

Sigmar sagði í dag að hann hafi komið með tillögu að veitingastað, verslun og upplýsingamiðstöð og hafi unnið að því að setja saman kynningu og fá fjárfesta að verkefninu.

Ætluðu að bjóða upp á góðan heildarpakka

Sigmar bætti því við að hann og Skúli ynnu þetta 50/50 en Skúla hafi þótt eðlilegt að hann hefði 2/3 hluta vegna þess að hann þyrfti að standa við verkefnið peningalega. „Ég lagði því til þriðjung og hann lagði til, eða ætlaði að leggja til, afganginn,“ sagði Sigmar.

Samkvæmt Sigmari var heildarhugmyndin bygging utan um sýningu. Ferðamenn gætu upplifað jarðhræringar og einnig yrði þar upplýsingamiðstöð almannavarna og að hægt væri að sækja í staðinn ef jarðskjálfti eða náttúruhamfarir yrðu á svæðinu. „Við ætluðum líka að bjóða upp á betri mat en boðið er upp á í sjoppum landsins við þjóðveginn.“

Sigmar sagði að Skúli hefði brugðist við með því að segjast vilja taka fasteignaverkefnið að sér þegar viðskiptaáætlun var skipt upp í fasteignaverkefni og sýningarverkefni. „Hann sagði að það væri kvöð að byggja úti á landi og sagðist geta gert það með vini sínum, Pálmari,“ sagði Sigmar en umræddur Pálmar Harðarson er framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Þingvangs.

Samskiptin fóru versnandi og Sigmari sparkað frá Subway

Eftir þetta fannst Sigmari samskipti hans og Skúla breytast en þetta var haustið 2014. „Hann benti á að ég hefði enga reynslu, menntun og þekkingu og hann væri að gera mér greiða með að taka þetta verkefni. Reyndari menn sögðu mér að þetta væri frekar skrítin nálgun. Þegar ég benti honum á það þá brást hann mjög illa við. Ég var þarna að vinna að markaðsmálum í Subway og hann sagði mér upp þar í nóvember 2014.“

Snemma árs 2015 er Sigmari ljóst að hann og Skúli muni ekki vinna saman að þessu verkefni rétt við Hvolsvöll. Hann hafi hins vegar talað fyrir því að þeir myndu snúa bökum saman til að hægt væri að vinna verkefninu brautargengi og síðan væri hægt að finna út hvernig leiðir þeirra myndu skilja.

Á vormánuðum 2015 gerði Skúli Sigmari 20 milljóna króna tilboð. Gegn því færi Sigmar úr fasteignahlutanum. „Mér hugnaðist það vel en hann setti [þann] fyrirvara að Pálmar Harðarson yrði að samþykkja þetta,“ segir Sigmar og bætir við að Pálmar og Skúli séu bestu vinir. Pálmar hafnaði að borga Sigmari þessa upphæð.

Skúli missti áhugann á Sigmari

Um miðjan apríl 2015 funduðu þeir með fjárfestum en Sigmar sagði að hann hafi ekki viljað styggja þá og sýna ósættið. Lögmanni Sigmars var tilkynnt eftir fundinn að ekkert yrði úr verkefninu og að Sigmar myndi ekki fá krónu í sinn hlut. „Ég sendi honum skilaboð og bið hann að hafa samband. Skúli segist bara hafa áhuga á þessu verkefni með félaga sem hafa peninga og þekkingu.“

Sigmar var gríðarlega óánægður með að í nóvember 2015 gerðu Íslandshótel tilboð upp á 50 milljónir í réttindi til bygginga á báðum lóðum, hótel og sýningar, sem var hafnað. Tilboðinu var ekki svarað og Sigmar benti á að hafið hafi verið að ræða verkefnið við Þingvang, fyrirtæki Pálmars Harðarsonar, án heimildar.

Lögmaður Sigmars sagði að það hefði verið ljóst frá byrjun að öll verðmætin hefðu átt að enda hjá Pálmari. Tilboði frá Þingvangi og Fox ehf. í aðra lóðina og kauprétt á hinni, hótellóð, var samþykkt í maí 2016. Tilboðið hljóðaði upp á 25 milljónir og voru 15 milljónir í kauprétt á hótellóð.

Sigmar og lögmaður hans bentu á að gengið hefði verið frá leigusamningum áður en búið var að ganga frá samningi við Fox. „Þetta voru sömu leigutakar og áður en Skúli tók U-beygju í málinu nema Skúli tók sjálfur yfir veitingageirann og skrifaði undir leigusamning við sjálfan sig þar,“ sagði Sigmar.

Snýst ekki um persónulega hagsmuni Sigmars

Haustið 2016 fór Skúli fram að á fyrirtæki hans og Sigmars, Sjarmur og Garmur, yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Sigmar telur að það hafi verið gert til að koma í veg fyrir dómsmálið sem nú er í gangi.

„Þetta snýst ekki um mína persónulegu hagsmuni heldur líka Stemmu. Ég skil ekki hvernig hann leggur í svona mikinn kostnað gegn eigin verkefni,“ sagði Sigmar. Hann setti þrjár milljónir inn í verkefnið og sagði að Skúli hefði átt að setja inn sex en hafi sett inn þrjár.

Sigmar kvaðst margoft hafa reynt að leita sátta, án árangurs. Hann hafi ekki fengið neitt út úr verkefninu fyrir utan reynsluna. „Ég hef ekki fengið krónu út úr þessu verkefni.“

Sigurður G. Guðjónsson og Guðmundur Hjaltason í Héraðsómi Reykjavíkur í …
Sigurður G. Guðjónsson og Guðmundur Hjaltason í Héraðsómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Arnþór

Sagði Sigmar reynslulausan með öllu

Skúli Gunnar hafði aðra sögu að segja. Hann sagðist hafa valið Sigmar með sér í verkefnið í upphafi eftir að nokkrir aðrir höfðu sagt nei en hann og Sigmar hafa unnið saman áður.

Aðspurður sagði Skúli að Sigmar sé mjög duglegur. Verkefnið hafi verið ómótað í upphafi en það hafi verið hugsað sem eldfjallasetur. Fasteignahugmyndin var samkvæmt Skúla sameiginleg.

Lögmaður Sigmars talaði um skyndilega u-beygju hjá Skúla þegar hann vildi ekki vinna með Sigmari í fasteignahlutanum. Skúli þvertók fyrir það. „Ég ætlaði aldrei að vinna með honum í fasteignahlutanum. Hann hefur aldrei byggt dúfnakofa á ævinni. Hann hefur enga reynslu, enga peninga og engar tengingar.“

Lögmaður Sigmars sagði að reynsluleysi Sigmars hafi verið það sama í upphafi verkefnisins. Skúli svaraði því til að þá hafi verið um að ræða óskilgreint heildarverkefni. „Ég kærði mig ekki um að fara í afmarkað fasteignaverkefni með honum.“

Álit matsmanns „kolrangt“

Skúli sagðist ekki hafa ákveðið að fá Pálmar í lið með sér, heldur hafi Lava-setrið viljað það. Hann hafi leitað ráða hjá Pálmari. „Ég hafði hugsað mér að hann gæti komið að þessu.“

Matsmaður sem var kallaður fyrir dóm sagði að lóðirnar tvær sem um ræðir, Austurvegur 12 og 14, væru metnar misdýrar. Austurvegur 14 væri metinn á 110-110 milljónir á meðan Austurvegur 12 væri metinn á 25 milljónir.

„Þessi matsgerð er kolröng,“ sagði Skúli og bætti við aðspurður að honum þyki þessi málsókn algjörlega tilgangslaus. „Ég hef engan áhuga á því að taka þátt í frekari viðskiptum með Sigmari Vilhjálmssyni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert