Brúi umönnunarbilið án tafar

BSRB kallaði á aðalfundi sínum eftir því að ríki og …
BSRB kallaði á aðalfundi sínum eftir því að ríki og sveitarfélög brúi þegar í stað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða. Ljósmynd/Aðsend

BSRB kallar eftir því að ríki og sveitarfélög brúi þegar í stað bilið milli fæðingarorlofs og dagvistunarúrræða. Ályktun þessa efnis var samþykkt aðalfundi BSRB og segir þar að óásættanlegt sé „að foreldrar þurfi að bíða tekjulausir í óvissu þar sem engin úrræði séu til staðar.“

Almennt séu það mæður sem brúi bilið með því að vera lengur frá vinnu en feðurnir og þetta stuðli að misrétti kynjanna á vinnumarkaði. Er því skorað á stjórnvöld að lögfesta rétt barna til dagvistunar að loknu fæðingarorlofi samhliða lengingu orlofsins í 12 mánuði, hækkun hámarksgreiðslna og því að greiðslur að 300 þúsund krónum á mánuði verði ekki skertar.

Einnig var samþykkt ályktun um húsnæðismál á aðalfundinum og kallað eftir því að „stjórnvöld stígi næsta skrefið í uppbyggingu á öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.“ Ljúka þurfi greiningu á framboði og eftirspurn húsnæðis, beina húsnæðisstuðningi til þeirra sem hvað mest þurfi á honum að halda og tryggja stöðugleika í framboði húsnæðis. Einnig verði að styðja við uppbyggingu leigufélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert