Hæsta sektin til innheimtu 153 milljónir

2.827 bíða þess að hefja afplánun fangelsisrefsingar sem vararefsingar vegna …
2.827 bíða þess að hefja afplánun fangelsisrefsingar sem vararefsingar vegna sekta. Myndin er frá Hólmsheiði. mbl.is/Hari

Alls bíða 2.827 einstaklingar afplánunar fangelsisrefsingar sem vararefsingar vegna óinnheimtra sekta hérlendis. Meðalfjárhæð óinnheimtu sektanna hjá þessum einstaklingum er um 600.000 krónur.

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Olgu Margrétar Cilia, þingmanns Pírata, en svarið byggist á þeim upplýsingum sem ráðuneytið fékk frá Fangelsismálastofnun ríkisins og Innheimtumiðstöð sekta og sakarkostnaðar.

Dómsmálaráðherra segir að taka verði þessari meðalfjárhæð sektanna með fyrirvara, þar sem fáar en mjög háar sektir hafi mikil áhrif. Hæsta sektin sem er til innheimtu er 153.500.000 kr. og sektir yfir tíu milljónum króna mynda 78% af heildafjárhæð allra óinnheimtra sekta.

Í fyrra hófu alls 39 einstaklingar afplánun innan eða utan veggja fangelsa vegna sektargerða og 102 einstaklingar hófu samfélagsþjónustu, í stað vararefsingar.

Undanfarin fimm ár hafa 1-4% af heildarfjárhæð óinnheimtra sekta fallið niður sökum þess að sektirnar eru fyrndar samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga, sökum andláts sektarþola eða vegna þess að tvö ár séu liðin frá skiptalokum, hafi sekt átt undir gjaldþrotaskipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert