Stofnendur WOW Cyclothon þáðu björgun

Skúli skellti sér í sjóinn við Seltjarnarnes í dag og …
Skúli skellti sér í sjóinn við Seltjarnarnes í dag og þáði björgun frá björgunarsveitarmönnum hjá Ársæli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þátttakendur í hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon munu safna áheitum fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg, annað árið í röð. Í keppninni, sem verður haldin í sjöunda sinn dagana 26. - 30. júní, hjóla einstaklingar og lið hringinn í kringum Ísland.

Í tilefni af ákvörðuninni um að styrkja Landsbjörg þáðu Skúli Mogensen og Magnús Ragnarsson, stofnendur WOW Cyclothon, boð björgunarsveitarinnar Ársæls um að taka þátt í björgunaræfingu á sjó. Þeir voru settir í sjóinn fyrir utan Seltjarnarnes þaðan sem þeim var bjargað í vel skipulagðri aðgerð.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, undirbýr sig fyrir björgunarleiðangurinn ásamt …
Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, undirbýr sig fyrir björgunarleiðangurinn ásamt björgunarsveitarmönnum úr Ársæli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Björgunarsveitirnar eru eitt af mikilvægustu málefnunum sem Íslendingar geta stutt. Við eigum þeirra starfi mikið að launa og það er ótrúlegt að sjá hversu mikið af fórnfúsu fólki er á vaktinni á hverjum degi til að tryggja öryggi okkar. Með því að styrkja Slysavarnafélagið Landsbjörg í fyrra hófst frábært samstarf sem við hlökkum til að halda áfram með í ár,“ er haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, í tilkynningu.

Á leiðinni út á haf.
Á leiðinni út á haf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Á útkallslista félagsins eru um 4.200 karlar og konur um land allt sem eru reiðubúin til að leggja á sig mikla sjálfboðavinnu, oft við erfiðar aðstæður, alla daga ársins.

„Öflugur stuðningur almennings og fyrirtækja er meginforsenda þess að hægt sé að halda úti öflugu slysavarna- og björgunarsveitastarfi í landinu, enda er allt slíkt starf unnið í sjálfboðavinnu. WOW Cyclothon sýnir nú Slysavarnafélaginu Landsbjörg stuðning sinn í verki öðru sinni með því að láta áheit af hjólreiðakeppninni í ár renna til félagsins. Fyrir það erum við afskaplega þakklát,“ er haft eftir Jóni Svanberg Hjartarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í tilkynningu.

Brosmildur Skúli rétt áður en honum var hent fyrir borð.
Brosmildur Skúli rétt áður en honum var hent fyrir borð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

WOW Cyclothon hefur jafnan verið vel sóttur viðburður en á síðasta ári var metþátttaka þar sem yfir 1.200 hjólreiðamenn tóku þátt. Áheitasöfnunin er stór hluti af keppninni og hefð er fyrir því að ljá góðu málefni lið. Skráning í WOW Cyclothon stendur nú yfir á heimasíðu keppninnar og lýkur 31. maí.

Skúli Mogensen og Magnús Ragnarsson, stofnendur WOW Cyclothon, þáðu björgun …
Skúli Mogensen og Magnús Ragnarsson, stofnendur WOW Cyclothon, þáðu björgun frá björgunarsveitarmönnum í tilefni af þeirri ákvörðun að þátttakendur í WOW Cyclothon í ár munu safna áheitum fyrir Landsbjörg. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jet-ski kom sér vel í björgunarleiðangrinum.
Jet-ski kom sér vel í björgunarleiðangrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Björgunin var vel skipulögð og gekk samkvæmt áætlun.
Björgunin var vel skipulögð og gekk samkvæmt áætlun. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert