Veður ætti ekki að hafa áhrif á kjörsókn

Úrkomuspá klukkan 12 á hádegi á kjördag.
Úrkomuspá klukkan 12 á hádegi á kjördag. Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir vætusaman kjördag á öllu landinu á morgun, að minnsta kosti framan af degi.

„Það er þessi mikla úrkoma á sunnan- og vestanverðu landinu í fyrramálið og svo rignir áfram suðvestan til alveg fram á kvöld en styttir upp á Norðvestur- og Norðurlandi,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Þá segir hún að fínasta vor- og sumarveður verði norðaustanlands og líklega á Austfjörðum eftir hádegi á morgun. Einnig gæti birt til á Norðvesturlandi, en þar verður ekki jafnhlýtt. „Það verður mjög hlýtt á Norðausturlandi, það er hlýtt loft að koma og það hlýnar með sunnanáttinni þar sem hiti getur farið í 19 gráður,“ segir Elín Björk. Hiti verður á bilinu 6 til 13 stig á landinu á morgun en 13 til 19 stig á Norðausturlandi.

Á höfuðborgarsvæðinu er rigning í kortunum fram á kvöld og hefur Veðurstofan varað við vatnavöxtum og aukinni hættu á skriðuföllum þar sem spáð er mikilli rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu í nótt og á morgun.

„Það verður svolítið hvasst í nótt en þetta er ekki veður sem ætti að hindra fólk í að komast á kjörstað,“ segir Elín Björk. Spáð er suðaustanátt, 10-18 metrum á sekúndu, í nótt en hægari vindi á morgun, um 5-13 metrum á sekúndu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert