„Þetta eru svo mörg framboð“

Kjósendur skoðuðu staðsetningar kjördeilda grannt ásamt lengsta kjörseðil fyrr og …
Kjósendur skoðuðu staðsetningar kjördeilda grannt ásamt lengsta kjörseðil fyrr og síðar. mbl.is/Árni Sæberg

Samgöngumál og húsnæðismál bar hæst á góma meðal kjósenda sem mbl.is náði af tali á kjörstað á Kjarvalsstöðum í Reykjavík í dag. Þó kom einnig til tals menntamál og hreinsun borgarinnar, en flestir voru sammála um að lítið hafði farið fyrir kosningabaráttunni að þessu sinni.

Páll Briem og eiginkona hans Anna Guðrún sögðu bæði að samgöngur og húsnæðismál væru mikilvægustu málaflokkarnir. Þau sögðust einnig kjósa í hverjum kosningum, en Anna Guðrún tók fram að hún hefði þurft að hugsa sig vandlega um áður en gengið var í kjörklefann.

Anna Guðrún og Páll Briem
Anna Guðrún og Páll Briem mbl.is/Árni Sæberg

Aldrei jafn áhugalaus

Einar Victor Karlsson tjáði blaðamanni að það hefði farið mikið í taugarnar á honum skortur á hreinlætishaldi og slæm umhirða borgarinnar. „Þetta óhreinlæti og rykmengunin fer rosalega í taugarnar á mér,“ sagði hann.

Menntamál og samgöngur brunnu helst á Olgu Sigurðardóttur sem sagði að hún hefði orðið lítið var við kosningabaráttuna, hún hafði hinsvegar séð ástæðu til þess að breyta til og kaus annað en síðast.

Einar Victor Karlsson og Olga Sigurðardóttir
Einar Victor Karlsson og Olga Sigurðardóttir mbl.is/Árni Sæberg

Einn kjósandi hafði að orði að það þyrfti sérstaklega að taka á stöðu húsnæðismála og samgöngumála og að mikilvægt væri að fylgja eftir þeirri stefnu sem borgin hefur mótað í þeim málum.

Tveir kjósendur tjáðu blaðamanni að þeir hefðu aldrei verið eins áhugalausir og í þessum kosningum, þrátt fyrir að hafa almennt mjög mikinn áhuga á stjórnmálum. Þá voru þessir kjósendur sammála um að varla hafa orðið varir við kosningabaráttu.

Taldi einn þeirra að um væri að ræða glundroða í stjórnmálum, „þetta eru svo mörg framboð, þetta er bara rugl.“ Viðkomandi sagði einnig að mikilvægasta málið væri að „brjóta auðvaldið á bak aftur.“

Sýna gott fordæmi

Vinkonurnar Elfa Sif Logadóttir og Sigríður Anna Árnadóttir voru sammála að það væri ekkert eitt mál sem hvatti þær á kjörstað. Voru þær einnig sammála um að samgöngumál og menntamál væru mikilvægust, sérstaklega staða leikskólamála þó þær sögðust vera lausar við það vandamál sjálfar.

Elfa Sif Logadóttir og Sigríður Anna Árnadóttir, ásamt (f.v.) Anna …
Elfa Sif Logadóttir og Sigríður Anna Árnadóttir, ásamt (f.v.) Anna Katarína, Karen og Soffía Arndís. mbl.is/Árni Sæberg

Á meðan Elfa Sif nefndi sérstaklega þéttingu byggðar sem mikilvægt málefni, nefndi Sigríður Anna að mikilvægt væri að efla samgöngur fyrir úthverfi borgarinnar.

Sigríður Anna tjáði blaðamanni að hún hefði ekki kosið í sveitarstjórnarkosningunum 2014. Spurð hvers vegna hún hafi farið á kjörstað í þetta sinn sagði hún að hún vildi vera með og hafa áhrif, ekki síst sýna gott fordæmi. Karen, dóttir Sigríðar Önnu, og tvær vinkonur hennar, Soffía Arndís og Anna Katarína, komu með á kjörstað, en þær voru að keppa á skákmóti og var stokkið á kjörstað milli leikja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert