Klæddi Anthony Hopkins

Margrét Einarsdóttir búningahönnuður er að gera það gott á erlendri …
Margrét Einarsdóttir búningahönnuður er að gera það gott á erlendri grundu en hún hefur hannað búninga fyrir fjölmargar kvikmyndir. mbl.is/Ásdís

Það er stund milli stríða hjá búningahönnuðinum Margréti Einarsdóttur en hún er nýkomin úr Flatey og á leiðinni til Danmerkur. Í næstum tvo áratugi hefur hún skapað eftirminnilegar persónur hvíta tjaldsins, klætt fræga sem ófræga, unnið í skítakulda á jöklum, ælt eins og múkki á fiskiskipi og vakað dögum saman við að sauma víkingaskó. Þrátt fyrir að vinnan nái oft yfir heilu og hálfu sólarhringana vill Margrét hvergi annars staðar vera í lífinu. Hún nýtur þess að eiga þátt í að segja sögur með því að skapa trúverðugar persónur með búningum sem hún hannar.

Hannaði föt á dúkkurnar

„Ég hef haft áhuga á þessu síðan ég var smákrakki. Amma kenndi mér handbrögðin en hún skapaði allt sjálf og fylgdi engum uppskriftum. Það lék allt í höndunum á henni og allt varð að listaverkum. Hún notaði oft alls kyns afganga og gerði veggteppi og saumaði út,“ segir Margrét og bætir við að móðir sín hafi einnig haft áhrif, en hún hafði numið við textíldeild Myndlista- og handíðaskólans.
Margrét man ekki öðruvísi eftir sér en í einhvers konar listsköpun.
„Ég var um fjögurra ára gömul þegar ég byrjaði að prjóna,“ segir Margrét og bætir við að hún hafi fengið mikla örvun og menningarlegt uppeldi; séð myndlistarsýningar, farið í leikhús og bíó, auk þess að hafa ferðast mikið bæði um landið og utan þess. Hún segist ung hafa byrjað að teikna kjóla og búninga.
„Ég á myndir sem ég teiknaði á fjórða ári sem mamma hefur geymt og eru þær af kjólum og búningum. Svo lék ég mér að dúkkulísum og hannaði og saumaði föt á dúkkurnar mínar. Þannig að þessi sköpunarþörf og þörf fyrir að segja sögur hefur alltaf verið til staðar. Mér finnst gaman að gera það sjónrænt. Kafa djúpt í karakterana og reyna að byggja upp trúverðuga mynd af persónunum. Þetta snýst ekki alltaf um að búningarnir þurfi að vera fallegir, þótt stundum eigi það við. Ég er að spegla lífið. Ég vil að fólk finni til samkenndar með persónunum,“ segir Margrét.
„Fólk er ekki alltaf í fötum sem passa og er alls ekki alltaf smekklegt. Ég er að skoða ferðalag persóna, botn þeirra og ris. Hvernig ég geti hjálpað til að skapa þennan heim sem það tilheyrir,“ segir hún.

Margrét starfar jafnt á Íslandi og í Noregi en hún …
Margrét starfar jafnt á Íslandi og í Noregi en hún hefur gert búninga fyrir fimm kvikmyndir á Norðurlöndunum. mbl.is/Ásdís

Hið einfalda getur verið erfitt

Nú er Margrét orðin eftirsótt í bransanum. Hún hefur unnið á fjölmörgum settum bíómynda við hinar ýmsu aðstæður og í mörgum löndum heims. Hún er nýkomin í bæinn eftir vinnutörn í Flatey sem búningahönnuður Flateyjargátu; sjónvarpsseríu sem Björn Brynjúlfur Björnsson vinnur að ásamt Saga Film eftir samnefndri bók.
„Sagan gerist 1971, rétt áður en handritin koma heim og verða þetta fjórir þættir. Við erum bara búin að taka upp í Flatey en eigum eftir fleiri tökur, bæði í Stykkishólmi og Reykjavík.“
Beðin um að lýsa vinnudegi sínum segist hún oftast mæta snemma til að gera allt klárt fyrir senur dagsins, en þá er oft mikill undirbúningur að baki. Á settinu felst vinnan í að vera tilbúin með næsta búning og hjálpa leikurunum sem koma oft í stríðum straumum til hennar yfir daginn. Stundum felst vinnan í áframhaldandi undirbúningi eða hönnun því oft þróast kvikmyndir eftir að tökur byrja og nýir leikarar bætast í hópinn.
Margrét segir einna skemmtilegast að vinna í „períódu“ og útskýrir að hún eigi við að vinna með ákveðin tímabil í sögunni en neitar því að eiga sér uppáhaldstímabil.
„Þetta snýst um karakterana og að búa til eitthvað trúverðugt til að hjálpa framvindu sögunnar. Það er skemmtilegt að setja sig inn í ákveðin tímabil en fyrir mér snýst þetta aðallega um að vera trúr sögunni. Oftast finnst mér að mér hafi tekist vel upp ef áhorfandinn sér ekki búningana en trúir á persónurnar. Maður hjálpar til við að skapa persónurnar og stemninguna með búningunum,“ segir Margrét.

Tökur eru hafnar á Flateyjargátu sem eru að hluta til …
Tökur eru hafnar á Flateyjargátu sem eru að hluta til teknar upp í Flatey þar sem Margrét dvaldi í nokkrar vikur nýlega.


„Stundum eru þeir auðvitað stærri partur af myndinni. Gott dæmi um það er sænsk kvikmynd sem ég gerði í fyrra, Eld och Lågor, en hún á að gerast árið 1940. Þar eru búningarnir mikið sjónarspil og maður segir söguna á allt annan hátt en maður er vanur að gera í nútíma raunsæi. Þarna fékk ég leyfi til að skapa meira og villtari heim en oft áður. Fyrir þá mynd voru allir búningar hannaðir og saumaðir frá grunni. Við bjuggum til skó, hatta og skart og allt saman.“
Það hlýtur að vera skemmtilegra en að finna réttu gallabuxurnar úti í búð?
„Já, en að finna réttu gallabuxurnar getur verið alveg jafn mikill hausverkur eins og að teikna eitthvað frá grunni. Stundum getur verið ótrúlega erfitt að finna rétta svarta stuttermabolinn,“ segir Margrét og hlær.
„Það er stundum ótrúlegt hvað einföldustu hlutir geta verið snúnir.“

Mads Mikklesen leikur í Arctic, nýrri amerísk-íslenskri mynd sem tekinn …
Mads Mikklesen leikur í Arctic, nýrri amerísk-íslenskri mynd sem tekinn er upp á Langjökli og sá Margrét um búninga.

Hannaði búninga á 3.590 manns

Það er það mjög misjafnt hvernig Margrét nálgast verkefnin, allt eftir því hvers konar mynd er um að ræða. Stundum kaupir hún notuð föt en í öðrum tilvikum hannar hún fötin frá grunni og þau eru þá sérsaumuð.
„Það fer alveg eftir verkefninu. Ef um er að ræða fantasíu þá þarf maður yfirleitt að skapa frá grunni en stundum raða ég saman fötum. Þetta er þó alltaf unnið í samstarfi við leikstjórann og leikarana en það er misjafnt hversu sterkar skoðanir þau hafa á búningunum,“ segir Margrét og lýsir ferlinu:
„Ég byrja á að lesa handritið og skoða týpurnar og hvaða línulega frásögn er í hverjum karakter. Svo ræðir maður útlitslegar pælingar við leikstjórann og leggur fram sínar tillögur,“ segir Margrét en í starfinu felst að sjá um búninga á alla leikara, þar með talið aukaleikara.
„Fjölmennasta verkefnið var mynd sem ég gerði í Noregi núna um daginn. Það er Netflix-mynd sem Paul Greengrass gerði um hryðjuverkaárásirnar í Noregi árið 2011. Þar voru tæplega níutíu leikarar með línur og um 3.500 aukaleikarar,“ segir Margrét sem þurfti, ásamt góðu teymi, að finna búninga á alla hersinguna.
„Ég er með frábært fólk sem vinnur með mér og án þess hefði ég aldrei getað gert þetta.“

Þakkarkort frá Anthony Hopkins

Stórmyndin Noah var að hluta tekin upp hér á landi. Við þá mynd vann Margrét sem „supervisor“ yfir búningum á Íslandi. Einnig vann hún við kvikmyndina The Secret life of Walter Mitty þar sem hún vann við að klæða mótleikara Ben Stiller.
Þannig að þú fékkst ekki að klæða Ben Stiller?
„Nei, en ég fékk að klæða Ólaf Darra sem var miklu skemmtilegra,“ segir hún og hlær.
Margrét segir Ben Stiller indælan og ekkert upp á hann að klaga og segist ekki hafa upplifað neina stjörnustæla, hvorki í honum né öðrum stórleikurum sem hún hefur kynnst á ferlinum.
Hefurðu einhvern tímann orðið „starstruck“?
„Já, einu sinni. Það var vegna Anthony Hopkins. Ég klæddi hann í Noah.“
Segðu mér frá því.
„Ég má það náttúrlega kannski ekkert,“ segir hún og hlær.
„Jú, hann var bara mjög ljúfur og yndislegur. Hann talaði mikið um bókmenntir og listir. Ég á ekki „selfie“ af okkur saman; maður vill vera faglegur. Ég geymi þetta allt á harða diskinum. En ég á reyndar fallegt þakkarkort sem hann skrifaði mér og ég passa upp á það. Það er mjög gaman. En maður lærir það hratt í þessum bransa að fólk er bara fólk, hvort sem það er frægt eða ekki, og ég hef fyrst og fremst haft góða reynslu af fólki í mínu starfi.“

Með Mads uppi á jökli

Fyrir skömmu var frumsýnd kvikmyndin Arctic á Cannes-kvikmyndahátíðinni en þar á Margrét heiðurinn af búningum. Variety valdi hana á lista sem eina af tólf bestu myndum hátíðinnar en hún skartar stórleikaranum danska Mads Mikkelsen. Hann leikur mann sem er strandaður á suðurpólnum og bíður þess að verða bjargað. Ung íslensk leikkona, María Thelma Smáradóttir, leikur á móti honum en þau eru einu tveir leikarnir í myndinni.
„Mads er frábær. Og hann var að fá dóma þar sem sagt var að þetta væri hans besti leikur hingað til. Þetta er amerísk-íslensk mynd en leikstjórinn, Joe Penna, er brasilískur en býr í Bandaríkjunum. Myndin er tekin upp hér á landi,“ segir Margrét og segist hafa dvalið löngum stundum uppi á jökli með Mads.

Margrét segir að eitt stærsta og skemmtilegasta verkefnið hafi verið …
Margrét segir að eitt stærsta og skemmtilegasta verkefnið hafi verið að hanna búninga fyrir sænsku myndina Eld och Lågor í leikstjórn Svíanna Måns Mårlind og Björn Stein. Myndin er í fantasíustíl og fjallar um forboðnar ástir milli konu og manns sem búa í tívólíum sitt hvorum megin við götu eina.
Lollo Urbansdottir Wahlström, umboðsmaður Margrétar, Margrét, Mads Mikkelsen, Lilja Ósk …
Lollo Urbansdottir Wahlström, umboðsmaður Margrétar, Margrét, Mads Mikkelsen, Lilja Ósk Snorradóttir og Ragna Fossberg voru kát á Cannes-kvikmyndahátíðinni þar sem myndin Arctic var frumsýnd fyrir skömmu.

Bara þú ein og Mads í huggulegheitum uppi á jökli?
„Já, og Ragna Fossberg,“ segir hún og hlær.
Nú er hann týndur þarna á snjóbreiðunni alla myndina. Er hann ekki alltaf í sömu fötunum?
„Jú, eða nei, þetta eru fjögur stig, eftir því hvar í myndinni hann er staddur,“ útskýrir Margrét en fötin eiga að sjálfsögðu að veðrast í gegnum myndina.
Hún segir veðrið hafa verið ansi slæmt á köflum en lét það ekki á sig fá. „Veður er bara veður. Það er yfirleitt meiri hausverkur að finna út úr því hvernig maður á að láta fjármagnið sem manni er úthlutað duga út myndina.“

Í lífshættu í spreng

Vinnan getur verið krefjandi að sögn Margrétar á ýmsan hátt; stundum eru samskiptin erfið en oftar eru það aðstæðurnar. Spurð um eftirminnileg atvik koma nokkur upp í huga hennar. 

„Ég gerði eitt sinn heila bíómynd sjóveik úti á sjó. Ég var sjóveik allan tímann og þegar ég var ég í landi var ég með sjóriðu, sem var lítið betra,“ segir Margrét og hlær, en bíómyndin sem hún vann við þá er Brim.
„Ég þakka guði fyrir sjóveikisplástra, þeir björguðu ansi miklu en ég var samt veik. En þrátt fyrir það var þetta ferlega skemmtilegt,“ segir hún og hlær.
„Svo var eftirminnilegt þegar ég var að skipta um búninga á fjörutíu víkingum í Lillehammer um miðjan vetur inni í pop-up tjaldi. Það var dálítið krefjandi,“ segir hún og skellihlær.
„Við vorum þrjár í þessu. Þeir komu sko ríðandi og þurftu að fara úr búningunum fyrir hina sem áttu að taka þátt í bardagasenu og þurftu sömu búningana, en málið var að sumir voru góðir á hestbaki en aðrir góðir í að slást. Og svo var það þriðji hópurinn sem var góður á skíðum. Maður þurfti að vera lausnamiðaður þarna því við höfðum ekki efni á að eiga einn búning á hvern. Þetta var mikill tetris-leikur að láta þetta allt ganga upp. Þeir fengu samt að vera í innsta laginu svo þeir þurftu ekki að vera í svitanum af næsta manni,“ segir hún og hlær.
Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
„Ég þurfti einu sinni að sauma saman klofið á einni stórstjörnu sitjandi úti í móa,“ segir hún og skellihlær. Ekki er hægt að toga upp úr henni hver það hafi verið. Viðkomandi hafi sagt henni að fara varlega með nálina.
Í annað sinn hafi hún dvalið í Grænlandsstormi uppi á Langjökli og þurft að skríða eftir reipi, ásamt sminkunni Kristínu Júllu, til þess að komast á klósett og lögðu þær stöllur sig í lífshættu á leiðinni.
„Ég var svo sjúklega hrædd að ég fékk hysteríuhláturskast og bað hana að lofa mér því að ef ég myndi deyja þarna myndi hún ekki segja neinum að ég hefði dáið á leiðinni á klósettið,“ segir hún og hlær.

Ítarlegt viðtal við Margréti er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 








Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert