Fíknigeðdeild lokuð fram í ágúst

Fíknigeðdeild verður lokuð fram í ágúst.
Fíknigeðdeild verður lokuð fram í ágúst. mbl.is/​Hari

Þrátt fyrir að minna sé um lokanir á geðdeildum Landspítalans nú en í fyrra verða margar þeirra lokaðar stóran hluta sumars. Fíknigeðdeild lokaði þann 15. júní og opnar ekki aftur fyrr en 7. ágúst, dagdeildin Hvítabandið og fimm daga endurhæfingardeild verða lokaðar í rúman mánuð og dagdeild átröskunarteymis í tæpa tvo mánuði.

Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV, en þar sagði framkvæmdastjóri Geðhjálpar, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, að lokun fíknigeðdeildar sé mjög alvarleg og geti orðið til þess að vandi þeirra sem þangað hefðu leitað verði flóknari og erfiðari.

Hún sagði fíknigeðdeild vera fyrir ungt og mjög veikt fólk, að mikið af fíkniefnum væri í umferð og að hætta væri á að fólk færi í geðrof, sem endi á örorku fyrir maga. „Það er mesti vöxturinn í þessum hópi. Þetta er unga fólkið okkar og við eigum auðvitað að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að það verði örorkuþegar framtíðarinnar.“

Þá sagði Anna Gunnhildur að Geðhjálp fyndi fyrir áhyggjum af lokun deildanna, þá sérstaklega frá aðstandendum ungs fólks sem hefði áhyggjur af því að fólk kæmist ekki að í sumar. Fram kemur í frétt RÚV að þeir sem þurfi á þjónustu geðdeilda að halda fái inni á öðrum deildum, en að þar sé þjónustan ekki sú sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert