Eldur kom upp á Keflavíkurflugvelli

Eldur kom upp í þaki húsnæðis á flugvallarsvæðinu í morgun.
Eldur kom upp í þaki húsnæðis á flugvallarsvæðinu í morgun. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Eldur kom upp í þaki húsnæðis IGS á Keflavíkurflugvelli um klukkan ellefu í morgun. Slökkviliðinu á Suðurnesjum gekk greiðlega að slökka eldinn og stórtjóni var forðað að sögn Jóns Guðlaugssonar, slökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Suðurnesja.

„Það kviknaði í þaki í flugeldhúsi og mér skilst að það hafi verið að vinna heita vinnu á þakinu, sem kviknaði í út frá. Það er búið að slökkva eldinn og verið að ganga frá og tryggja það að það leynist engar glæður þarna inn á milli,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Húsnæðið sem um ræðir er staðsett inni á flugvallarsvæðinu, í grennd við flugstöðina. Jón segir tjónið virðast talsvert, en að enn verr hefði getað farið.

„Það gekk ágætlega að slökkva þetta, en það er nú eðli svona elda, þegar það er verið að vinna með hita og eldfim efni á þökum, að ef það er ekki brugðist skjótt við þá getur þetta orðið ansi erfitt. En þetta tókst vel,“ segir Jón.

„Þetta er alltaf talsvert tjón, ég veit ekki hversu mikið það er en tjónið er alltaf talsvert. En það hefði getað orðið margfalt þetta, það má eiginlega orða það þannig að það hafi tekist að forða stjórtjóni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert