Íslendingar nokkuð bjartsýnir

Íslenska þjóðin er hóflega bjartsýn á gengi íslenska landsliðsins á …
Íslenska þjóðin er hóflega bjartsýn á gengi íslenska landsliðsins á HM í Rússlandi. mbl.is/Golli

Íslenska þjóðin er hóflega bjartsýn á gengi íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Rússlandi samkvæmt könnun MMR. Rúmlega helmingur taldi íslenska liðið líklegt til að komast upp úr riðlakeppninni en þar af töldu tæplega tuttugu prósent aðspurðra að liðið kæmist í 8-liða úrslit eða lengra.

Af þeim sem spurðir voru töldu 59% að íslenska liðið kæmist upp úr riðlakeppni D-riðils og þar af töldu 19% að liðið kæmist í 8-liða úrslit. Þrjú prósent töldu að íslenska liðið kæmist í undanúrslit.

Þá töldu 2% prósent svarenda að Ísland kæmist í úrslitaleikinn sem er sama hlutfall og taldi að íslenska liðið myndi hampa heimsmeistaratitlinum.

Konur bjartsýnni en karlar

Konur voru bjartsýnni á gott gengi liðsins en tveir þriðju kvenna töldu að liðið kæmist upp úr riðlinum samanborið við 52% karla. Yngstu og elstu svarendur voru einnig almennt bjartsýnni en aðrir og töldu 67% fólks á aldrinum 18-29 ára og 69% svarenda á aldrinum 68 ára og eldri liðið líklegt til að enda keppnina sem eitt af sextán efstu liðunum.

Lítill munur var á svörum eftir búsetu fólks en bjartsýni fór minnkandi með auknum tekjum. Einungis tæplega helmingur svarenda með meira en milljón á mánuði í tekjur taldi að liðið kæmist upp úr riðlinum. Háskólamenntaðir voru svartsýnni en aðrir og töldu aðeins 53% þeirra að liðið kæmist í 16-liða úrslit.

Munur eftir stjórnmálaskoðunum

Stuðningsfólk Flokks fólksins var líklegast til að telja að íslenska liðið myndi standa uppi sem heimsmeistari en almennt var stuðningsfólk Miðflokksins líklegast til að telja íslenska liðið líklegt til afreka í riðlakeppninni og spáðu 79% þeirra liðinu áframhaldandi þátttöku að lokinni riðlakeppni.

Stuðningsfólk Pírata var líklegast til að telja að íslenska liðið myndi lenda í öðru sæti í keppninni.

Könnunin var framkvæmd dagana 12. - 18. júní og tæp 4% svara bárust eftir að leik Íslands og Argentínu lauk. Heildarfjöldi svarenda var 925.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert