Heitar umræður í borgarstjórn

Borgarfulltrúar minnihlutans stilla saman strengi.
Borgarfulltrúar minnihlutans stilla saman strengi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsti fundur nýrrar borgarstjórnar var settur í dag klukkan tvö. Fyrir fundinum lágu 54 mál, mörg hver formsatriði. Dagur B. Eggertsson var endurkjörinn borgarstjóri, Dóra Björt Guðjónsdóttir forseti borgarstjórnar og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs í samræmi við meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna. Þá voru tillögur meirihlutans um sameiningu ráða samþykktar og kosið til sjö manna stjórnar þeirra.

Minnihlutinn var samheldinn í kosningunum og vakti athygli sumra, til að mynda borgarstjóra, að Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, skyldi stilla sér upp með Sjálfstæðismönnum, Flokki fólksins og Miðflokki gegn meirihlutaflokkunum.

Auk rútínumála voru teknar fyrir nokkrar tillögur borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins. Ein þeirra fjallaði um afnám þóknunar fyrir nefndarsetu starfsmanna borgarinnar á fundum sem setnir eru á vinnutíma.

Ásakanir um trúnaðarbrest

Í umræðum um breyt­ingu á skipu­lagi nefnda þakkaði Líf Magneudóttir andmælanda sínum Mörtu Guðjónsdóttur fyrir að vilja áfram starfa að um­hverf­is­mál­um í nýrri um­hverf­is- og heil­brigðis­nefnd. Það lagðist illa í borgarfulltrúa minnihlutans og gerði Marta at­huga­semd þar sem minni­hlut­inn hefði aldrei upp­lýst meiri­hlut­ann um hverja hann hygðist kjósa í nefnd­ir borg­ar­inn­ar.

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðismanna, sagði flokkinn hafa sent til­lög­ur minni­hlut­ans til starfs­manns borg­ar­inn­ar í trúnaði og spurði hver hefði „lekið“ umræddum upplýsingum. Þeirri spurningu var ekki svarað, en Dagur B. Eggertsson sagði að hefð hefði skapast fyr­ir því að senda frá sér til­lög­ur um nefndarsetu vegna þeirra deilna sem til­nefn­ing Gúst­afs Ní­els­son­ar í mann­rétt­indaráð hefði skapað á sín­um tíma.

Umræða hefur verið um launakjör æðstu embættismanna fyrir nefndarsetu, eftir að það komst í fréttir að bæjarstjórar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur fá 137.000 krónur á mánuði fyrir setu í stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Borgarstjóri Reykjavíkur, sem er formaður stjórnarinnar, fær svo gott betur eða 205.000 krónur mánaðarlega. Fimm stjórnarfundir hafa verið haldnir það sem af er ári, eða um einn á mánuði.

Afmælisbörnin Dagur B. og Dóra Björt voru kosin borgarstjóri og …
Afmælisbörnin Dagur B. og Dóra Björt voru kosin borgarstjóri og forseti borgarstjórnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umræða um tillöguna stóð yfir í um klukkustund. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri benti á að ekki væri sanngjarnt að reikna vinnuálag út frá fundum einum og sér enda færi mest vinnan við stjórnarsetuna fram utan eiginlegra stjórnarfunda. Þó væri eðlilegt að yfirfara launakjör æðstu embættismanna og lagði hann til að tillögunni yrði vísað til borgarráðs til frekari umfjöllunar.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði ógegnsætt fyrir fólk úti í bæ að átta sig á hvað borgarfulltrúar væru í raun og veru með í laun þegar greitt væri aukalega fyrir ýmsa stjórnarsetu.

Sagði hún að á síðustu öld hefði tíðkast að þingmenn sætu jafnvel í bankaráði og þæðu fyrir það laun. Þingið hefði síðar tekið sér tak og sett sér reglur um að þingmenn mættu ekki sitja í stjórnum ríkisfyrirtækja.

Úr varð að tillögunni var vísað til borgarráðs með tólf atkvæðum meirihlutans gegn ellefu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert