„Þetta fer bara vel í mig“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddiviti …
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, og Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddiviti Pírata. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Fyrsti fundur borgarstjórnar Reykjavíkur eftir nýafstaðnar kosningar fer fram í dag og liggur talsverður fjöldi tillagna fyrir fundinum. Hefðbundið er að á fyrsta fundi séu ekki afgreiddar margar tillögur, heldur aðeins skipað í nefndir ráð og aðrar stöður, eins og borgarstjóra og forseta borgarstjórnar. Að þessu sinni liggja fyrir nokkrar skipulagsbreytingar á nefndarstarfi borgarinnar lagt fram af nýjum meirihluta ásamt fjölda tillagna frá minnihlutanum.

Þetta er í fyrsta sinn sem 23 fulltrúar sitja borgarstjórnarfund, en áður sátu þar 15 borgarfulltrúar. Allar líkur eru á því að Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, verði kjörin forseti borgarstjórnar í takt við samstarfssamning meirihlutans.

Spennandi hlutverk

„Þetta fer bara vel í mig,“ svarar Dóra Björt í samtali við mbl.is, aðspurð um hvernig það leggst í hana að taka að sér fundarstjórn borgarstjórnar. Hún bætir við að henni finnist gaman að stjórna fundum og tryggja aðkomu allra. „Mér finnst embætti forseta í raun og veru vera lýðræðishlutverk,“ segir Dóra Björt.

Hún segir erfitt að segja hvernig fundurinn verður, en mörg mál eru á dagskrá borgarstjórnar og að hún sé að ganga í spennandi hlutverk. „Ég geri ráð fyrir því að þetta fari bara allt saman vel fram og fólk komi sínum sjónarmiðum að og þau [mál á dagskrá] verða svo rædd af einhverju marki og þeim fundinn farvegur,“ segir Dóra Björt.

Heldur óhefðbundið er að margar tillögur séu teknar fyrir á fyrsta fundi borgarstjórnar. Dóra Björt staðfestir að allar tillögurnar frá minnihlutanum verða teknar fyrir. Hins vegar kemur fram í samtali mbl.is við Vigdísi Hauksdóttur, oddvita og borgarfulltrúa Miðflokksins, að hennar upplifun hafi verið að meirihlutinn hafi reynt að koma í veg fyrir að tillögur færu á dagskrá.

„Okkur var bent á það að ekki væri hefð fyrir því að leggja fram tillögur á fyrsta fundi borgarstjórnar því þá væri bara kosið í ráð og nefndir. Það fannst hvergi lagastoð fyrir því, útaf því eru þessar tillögur fram komnar, þannig að þetta verður bara skemmtilegt,“ segir Vigdís.

Vilja áheyrnafulltrúa

Fyrir borgarstjórn liggja tillögur sem hafa áhrif á skipun í nefndir í ráð og nefndir, meðal annars tillaga Sósíalistaflokksins um að minni flokkar fái áheyrnafulltrúa í fastanefndir borgarinnar. Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti sósíalista, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða tillögu til þess að tryggja lýðræðislegan rétt kjósenda, þar sem flokkar sem fengu einn borgarfulltrúa samanlagt fengu 16,8% fylgi í kosningunum.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sósíalistaflokksins.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sósíalistaflokksins. Ljósmynd/Aðsend

Vigdís segist sammála þessari tillögu Sósíalistaflokksins þar sem mikilvægt sé að tryggja virkt lýðræði. Hún harmar einnig tillögu meirihlutans um að fresta skipun í hverfisráð borgarinnar fram undir áramót.

„Þetta verður til umfjöllunar í dag og verður þá rætt til þess að finna þessu máli einhvern farveg. Mér finnst auðvitað mikilvægt að raddir allra fái að heyrast, en svo er líka mikilvægt að fylgja lögum sem um ákveðin ferli hvað þetta varðar. Við verðum bara að skoða þetta á fundinum og vinna þetta áfram,“ segir Dóra Björt um tillögu Sósíalistaflokksins.

Spurð um tillögu sósíalista um áheyrnafulltrúa segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, „við komum náttúrulega bara til með að ræða það í dag á borgarstjórnarfundi, en nú eru nýjar reglur í gildi sem við erum öll að reyna að átta okkur á, með fjölgun borgarfulltrúa. Það hefur haft áhrif á breytingar sem við erum að setja okkur í stellingar fyrir.“

Borgarstjórnarsalurinn mun eflaust líta öðruvísi út, en borgarfulltrúum hefur verið …
Borgarstjórnarsalurinn mun eflaust líta öðruvísi út, en borgarfulltrúum hefur verið fjölgað í 23. mbl.is/Styrmir Kári

Nýtt skipulag

Meirihlutinn hefur lagt til nokkrar breytingar á nefndarskipan borgarinnar sem Þórdís Lóa segir miða af því að straumlínulaga kerfið og styrkja nefndir og ráð borgarinnar.

Nýr meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggur til að stofnað verði mannréttinda- og lýðræðisráð, en ráðinu verður falið að taka að sér verkefni mannréttindaráðs ásamt verkefnum stjórnkerfis- og lýðræðisráðs. Þá er stefnt að sameiningu menningar- og ferðamálaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs í menningar-, íþrótta- og tómstundaráð. Hið nýja ráð mun ekki fara með ferðamálin sem verða flutt til borgarráðs.

Meirihlutinn leggur einnig til að stofnað verði nýtt skipulags- og samgönguráð sem mun fara með skipulags-, samgöngu- og byggingarmál, sem þá eru aðskilin frá umhverfismálum sem hingað til hefur verið í umhverfis- og skipulagsráði. Umhverfismálin verða hinsvegar sett undir nýtt umhverfis- og heilbrigðisráð sem tekur einnig við fyrri verkefnum heilbrigðisnefndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert