41,5 milljarða afgangur af rekstri sveitarfélaga

Íslandsbanki var eitt sinn með útibú í þessu húsi.
Íslandsbanki var eitt sinn með útibú í þessu húsi. Árni Sæberg

Tekjur sveitarfélaga, sem falla undir A- og B-hluta starfsemi þeirra, námu 405,5 milljörðum króna í fyrra og jukust um 7% á milli ára. Hlutdeild sveitarfélaga í tekjum hins opinbera er nú 28,5 prósent og hefur ekki verið hærri í fimmtán ár, hið minnsta. Þetta kemur fram í skýrslu Íslandsbanka um íslensk sveitarfélög, sem kom út í dag.

Í skýrslunni kemur fram að afgangur af rekstri samstæðu sveitarfélaganna 74 nam 41,5 milljörðum króna og ber helst að þakka lægri fjármagnsgjöldum sökum lægri skuldsetningar og hagstæðara lánaumhverfis. Munar þar mestu um 28 milljarða afgang af rekstri samstæðu Reykjavíkurborgar.

Langtímaskuldbindingar sveitarfélaganna hafa lækkað á hverju ári frá 2009, samtals um 193 milljarða króna og segir í samantekt bankans að rekstur sveitarfélaga landsins sé nokkuð traustur og standi þau flest undir núverandi skuldsetningu.

Flest sveitarfélög skulda lítið

Í skýrslunni er sveitarfélögum skipt í fernt eftir því hvort skuldsetning þeirra er mikil eða lítil og hvort rekstur sveitarfélagsins stendur undir skuldsetningunni eða ekki. 

Langflest sveitarfélög eru, að mati bankans, lítið skuldsett og rekin í samræmi við núverandi skuldsetningu. Nokkur sveitarfélög, Seltjarnarnes, Vesturbyggð, Skagafjörður og Stykkishólmur, skulda lítið en standa ekki undir núverandi skuldsetningu miðað við rekstur. Halli varð á rekstri Seltjarnarnesbæjar í fyrra en sveitarfélagið er eitt átján sveitarfélaga sem ekki innheimta hámarksútsvar, 14,52%.

Þá fær eitt sveitarfélag, Reykjanesbær, þann dóm að vera mikið skuldsett en vel rekið í samræmi við skuldsetningu.

Jöfnunarsjóði sveitarfélaga var komið á fót árið 1937 en honum er ætlað að draga úr aðstöðumun sveitarfélaga sem skapast vegna ólíkra tekjumöguleika og útgjaldaþarfar þeirra. 

Jöfnunarsjóðurinn er fjármagnaður með tekjum úr ríkissjóði, sem nema 2,12% af innheimtum tekjum ríkissjóðs og 0,264% af álagningarstofni útsvars. Þá leggja sveitarfélögin sjóðnum einnig til fé til jöfnunar vegna reksturs grunnskóla og málefna fatlaðra.

Framlög í jöfnunarsjóðinn námu í fyrra 43,2 milljörðum króna eða um 10 prósentum af heildartekjum sveitarfélaganna. Hlutfallið var 7 prósent fyrir áratug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert