Malbikað á Reykjanesbraut

mbl.is/Hari

Unnið er að því að malbika Reykjanesbraut á 1.200 m kafla á mislægum gatnamótum við Krýsuvíkurveg til klukkan 23:30 í kvöld. Slitlag verður lagt á syðri akrein og vegöxl en norður akrein og vegöxl í framhaldi. Umferð í átt til Reykjanesbæjar er að mestu óhindruð en umferð frá Reykjanesi mun aka hjáleið um Ásbraut í Vallahverfi. Þrengt verður að umferð og búast má við umferðartöfum, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

Í dag og í nótt er stefnt að því að fræsa og malbika vinstri akrein og öxl á Reykjanesbraut frá Strandarheiði að mislægum gatnamótum við Vatnsleysustrandarveg. Þrengt verður um eina akrein og búast má við lítils háttar umferðartöfum. 

Hálendisvegir eru óðum að opnast, t.a.m. er Kjölur opinn þótt hann sé enn ekki fær fólksbílum. Tvær leiðir af þremur inn í Landmannalaugar eru opnar. Á Austurlandi er opið inn í Kverkfjöll og eins er opið inn í Öskju og raunar alveg inn að Holuhrauni.

Engu að síður er enn akstursbann á allmörgum hálendisvegum og slóðum sem eru mjög viðkvæmir meðan frost er að fara úr jörð. Þeir sem vilja ferðast um hálendið eru eindregið hvattir til að nýta sér þær leiðir sem álitnar eru tilbúnar fyrir umferð og búið er að opna en tefla ekki í tvísýnu vegum og náttúru þar sem enn er lokað.

Malbikunarframkvæmdir í Reykjavík í dag:

Tunguvegur (Sogavegur - Bústaðavegur, seinni helmingur)

Háaleitisbraut (Listabraut - Bústaðavegur)

Hæðargarður (Fagverk)

Hæðargarður, tengigötur (Fagverk)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert