Niðurstöðu ekki að vænta á stöðufundi

„Þetta er erfiður róður, hefur verið það og verður það væntanlega. Við mætum bara með opinn huga og leitum eftir sáttum.“ Þetta sagði Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, í samtali við mbl.is þar sem hún var á leið til fundar með samninganefnd ríkisins sem hófst klukkan 11.

Fundurinn er sá fyrsti með nefndunum síðan ljósmæður felldu nýjan kjarasamning fyrr í mánuðinum. Einungis er um stöðufund að ræða og þar af leiðandi er ekki við því að búast að komist verði að einhverskonar niðurstöðu.

Katrín Sif segist hafa upplifað blendnar tilfinningar þegar ljósmæður felldu kjarasamninginn. „Þetta voru að vissu leyti vonbrigði því það var mikil vinna sem lá þarna að baki. Að sama skapi þykir manni vænt um að konur standi með sjálfum sér og skoðunum sínum ef þær eru óánægðar og fylgi því alla leið.“

Í kjölfar fundar samninganefndanna mun kjaranefnd ljósmæðra funda og ákveða næstu skref. Ljósmæður hafa jafnvel nefnt verkfall og yfirvinnubann og segir Katrín Sif að ákvörðun í þeim efnum verði líklega tekin í dag.

Stöðufundur við það að hefjast í dag.
Stöðufundur við það að hefjast í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert