Telja endurskipun í stöðu framkvæmdastjóra LÍN ófaglega

LÍS telja að ekki hafi verið faglega staðið að endurskipun …
LÍS telja að ekki hafi verið faglega staðið að endurskipun Hrafnhildar Ástu Þorvaldsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra LÍN. mbl.is/Hjörtur

Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) lýsa yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð mennta- og menningarmálaráðuneytis við endurskipun í embætti framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Í yfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að samtökin telji að ekki hafi verið faglega staðið að endurskipun Hrafnhildar Ástu Þorvaldsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). 

„Leitast skal í hvívetna við að finna og skipa hæfasta einstaklinginn í öll embætti út frá faglegum forsendum, einungis er hægt að tryggja það með því að viðhafa gegnsætt og opið ráðningaferli,“ segir meðal annars í yfirlýsingunni, sem má lesa í heild sinni hér að neðan: 

Landssamtök íslenskra stúdenta, LÍS, lýsa yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð Mennta- og menningarmálaráðuneytisins við endurskipun í embætti framkvæmdastjóra Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN.  LÍS leggja áherslu á að gagnsæi og fagmennska séu ætíð höfð að leiðarljósi í starfsemi ráðuneytisins en þessi vinnubrögð endurspegla ekki þau gildi. Leitast skal í hvívetna við að finna og skipa hæfasta einstaklinginn í öll embætti út frá faglegum forsendum. Hlutverk lánasjóðsins er að þjóna sem félagslegur jöfnunarsjóður sem tryggir jafnt aðgengi allra að háskólamenntun óháð efnahag og á undantekningalaust að standast slíkar væntingar.

Krafa stúdenta um að starf framkvæmdastjóra LÍN sé auglýst þegar ráðningartímabili lýkur í hvert sinn verður að teljast eðlileg þar sem málefni Lánasjóðsins standa þeim mjög nærri.  Einungis er hægt að tryggja það með því að viðhafa gegnsætt og opið ráðningarferli. Mennta[-] og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hafði sjálf orð á því á landsþingi LÍS í mars síðastliðnum að hennar stefna væri að auglýsa í stöður sem þessar og eru það því enn frekari vonbrigði að sú sé ekki raunin. Stúdentar mótmæla þessari ákvarðanatöku og krefjast þess að horfið verði alfarið frá vinnubrögðum sem þessum sem stríða gegn lýðræðislegri, opinni og upplýstri stjórnsýslu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert