Börn eigi ekki heima í fangelsi

Kveikjan að fundinum var fjölskylduaðskilnaðarstefna Bandaríkjanna á suðurlandamærum ríkisins.
Kveikjan að fundinum var fjölskylduaðskilnaðarstefna Bandaríkjanna á suðurlandamærum ríkisins. mbl.is/Valli

„Við erum ekki að mótmæla Trump sem slíkum, við erum í rauninni að ganga fyrir mannúðlegri stefnu í málefnum flóttamanna og innflytjenda á heimsvísu,“ segir Snæbjörn Brynjarsson, einn skipuleggjenda mótmælafundar og samstöðugöngu sem hófst á Austurvelli kl. 17 og færist svo að bandaríska sendiráðinu.

„Við erum mjög meðvituð um að það eru margar brotalamir í Evrópu og hérlendis og viljum almennt sýna samstöðu með fólki sem er á flótta,“ segir Snæbjörn, en kveikjan að mótmælagöngunni voru aðgerðir Bandaríkjastjórnar á landamærum sínum að Mexíkó, þar sem börn hafa undanfarnar vikur verið aðskilin frá foreldrum sínum við landamærin, eftir sú stefna var tekin upp að draga alla fullorðna sem kæmu með ólögmætum hætti til Bandaríkjanna fyrir rétt.

Þessi stefna vakti hörð viðbrögð á alþjóðavísu og í gær undirritaði Donald Trump Bandaríkjaforseti tilskipun sem ætlað er að koma í veg fyrir aðskilnað barna og foreldra. En innflytjendastefna Bandaríkjanna undir Trump verður áfram hörð.

Frá mótmælafundinum á Austurvelli. Þórunn Ólafsdóttir ávarpar samkomuna.
Frá mótmælafundinum á Austurvelli. Þórunn Ólafsdóttir ávarpar samkomuna. mbl.is/Valli

„Það er mikilvægt að hafa í huga að þessu máli er alls ekki lokið. Þetta eru fjölskyldur og þau verða kannski geymd saman núna í klefum, en við vitum það alveg að fangelsi er ekki staður fyrir ungabörn og börn á leikskólaaldri, þetta getur haft slæm áhrif á þroskaferli þeirra og verið mjög „tramatísk“ reynsla,“ segir Snæbjörn og bætir því við að mörg þeirra sem komi að landamærunum séu þar á löglegum forsendum.

„Það er ekkert hægt að tala um ólöglega innflytjendur í þessu samhengi. Þetta er bara fólk sem er að óska eftir hjálp, fjölskyldufólk sem er sett í mjög slæmar aðstæður.“

Snæbjörn segir það alvarlegt að valdamesta land í heimi séu ekki lengur í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, en Bandaríkin sögðu sig úr ráðinu fyrr í vikunni. 

Eftir fundinn á Austurvelli var gengið að bandaríska sendiráðinu.
Eftir fundinn á Austurvelli var gengið að bandaríska sendiráðinu. mbl.is/Valli

„Það grefur undan alþjóðasamkomulagi og sáttmálum um grundvallarmannréttindi,“ segir Snæbjörn, sem er fundarstjóri samkomunnar á Austurvelli, en þar voru haldnar ræður áður en gengið var af stað að bandaríska sendiráðinu.  Ræðumenn voru Anna Lúðvíksdóttir, Prodhi Manisha, Nicole Leigh Mosty, Þórunn Ólafsdóttir, Dóra Magnúsdóttir og Elísabet Jökulsdóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert