Dómurinn hvalreki fyrir starfsmenn

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson. mbl.is/Kristinn Magnúsosn

Dómur Hæstaréttar í máli Jökuls Þórs Jónssonar, starfsmanns Hvals hf., gegn Hvali hf. er ekki aðeins fordæmisgefandi fyrir starfsmenn Hvals heldur allan íslenskan vinnumarkað. Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýsðfélags Akraness, sem annaðist málarekstur.

Málið höfðaði Jökull vegna launa sem ekki voru í samræmi við kjarasamning SA og Starfsgreinasambandsins, sem Verkalýðsfélag Akraness á aðild að, en hann starfaði í hvalstöðinni sumarið 2015.

Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu í dómnum að hvíldartími starfsmannsins hafi verið skertur og honum ekki tryggður einn vikulegur frídagur. Þó ekki sé gert ráð fyrir að slíkur frídagur sé launaður beri vinnuveitanda að tryggja þessa lágmarkshvíld. Þar sem Hvalur hf. hafi ekki gert það beri að greiða dagvinnulaun vegna þeirra. Með örðum orðum fái starfsmenn áttunda daginn greiddan vinni þeir sjö daga samfleytt.

Magnús M. Norðdahl, aðallögfræðingur Alþýðusambandsins, er sama sinnis. Dómurinn sé skýr.

250.000 króna hækkun mánaðarlauna

Í kjarasamningum starfsmanna Hvals vegna vertíðarinnar sem nú fer í hönd er tekið tillit til dóms Hæstaréttar og greiddar sérstakar greiðslur vegna frítökuréttar. Þá fæst áttundi dagurinn greiddur vinni menn sjö daga samfleytt. Vilhjálmur segir þetta skipta sköpum enda geti mánaðarlaun starfsmanna hækkað um 250.000 krónur vegna þessa.

Ljóst er að mál Jökuls er ekki einsdæmi enda fjöldi starfsmanna í sömu vinnu með kjarasamning.

„Það sem gerist í framhaldinu er að ráðningarsamningar á öllum vertíðum eru bara copy-paste, afrit af þessum,“ segir Vilhjálmur. Samskonar samningar voru gerðir við 97 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, sem unnu hjá Hvali hf. á vertíðunum 2013-15 og segir Vilhjálmur mál þeirra vera í ferli.

„Eðlilegast væri að Hvalur myndi endurreikna laun þessara starfsmanna og greiða fólkinu, en ég hef lúmskan grun að hann [Kristján Loftsson, forstjóri Hvals] ætli sér að láta reyna á málin fyrir dómstólum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert