Leikhúsfélag sýknað af milljarðakröfu

Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Mogul Holding ehf., en hollenska fyrirtækið Mango Tree B.V. krafði Mogul Holding ehf. um rúmlega tíu milljónir dollara eða um 1,1 milljarð króna auk dráttarvaxta frá janúar 2012 vegna meintra vanefnda í tengslum við innlausnar hlutafjár Mango Tree B.V. í Mogul Holding ehf.

Mogul Holding ehf. bauðst árið 2006 að kaupa sýningarréttinn að leikritinu Hellisbúanum fyrir 16,5 milljónir dollara eða 1,8 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið hóf því leit að fjárfesti sem myndi kaupa hlut í fyrirtækinu til þess að geta fjármagnað kaup á sýningarréttinum.

Brú II ehf., sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða, keypti hina nýju hluta í félaginu, en Mango Tree B.V. tók við hlutum Brúar II ehf. um mitt árið 2008. Mango Tree B.V., sem skráð hefur verið fyrir 22% í Mogul Holding ehf., er í eigu Brúar II ehf.

Sameining grundvöllur deilna

Mogul Holding ehf. var lengi vel dótturfélag Leikhúsmógúlsins ehf., en félögin sameinuðust fyrir árslok 2008. Mango Tree B.V. hefur þá viljað meina að sem forgangshluthafi hafi félagið haft rétt á að fá greidd út verðmæti sín í skiptum fyrir hluti sína, enda hafi ákvæði þess efnis verið í samþykktum félagsins.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem hæstiréttur hefur nú staðfest, segir meðal annars að við sameininguna hafi breyst í almenna hluti og að eigendur meirihluta nýs félags eru þeir sömu og áður.

Hæstiréttur hafnaði kröfum Mango Tree B.V. og gerði fyrirtækinu að greiða Mogul Holding ehf. 1,2 milljónir króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert