Ljósmæðranemar ætla ekki að ráða sig

Kjaraviðræður ljósmæðra við ríkið eru sem stendur í mikilli pattstöðu.
Kjaraviðræður ljósmæðra við ríkið eru sem stendur í mikilli pattstöðu. Eggert Jóhannesson

Útskriftarnemar í ljósmóðurfræði segjast standa heilshugar við yfirlýsingu sína sem birt var í apríl, þar sem lýst var yfir fullum stuðningi við ljósmæður í yfirstandandi kjaraviðræðum, núna þegar uppsagnir ljóðsmæðra fara að taka gildi. Ekki er það í kortunum fyrir ljósmæðranema að ráða sig í fastar stöður sem ljósmæður fyrr en samningar nást.

Í yfirlýsingunni segir að þeir nemar sem útskrifast núna á laugardaginn hyggist ekki sækja um þær stöður sem losna þegar uppsagnir nítján ljósmæðra taka gildi þann 1. júlí næstkomandi. „Fram til ársins 2014 voru ljósmæðranemar á launum í klínísku námi. Nú eru ljósmæðranemar á launalausum þrískiptum vöktum í tvö ár. Augljóst er að staða nýútskrifaðra ljósmæðra er því töluvert verri en áður“ segir i yfirlýsingunni.

„Ég hef miklar áhyggjur af ástandinu, ekki vegna öryggi kvenna og barna sem verður reynt að tryggja eftir fremsta megni, heldur vegna þess að reyndar ljósmæður með mikla þekkingu eru að hverfa frá störfum“ Segir Inga María Hlíðar Thorsteinson, ljósmóðurnemi, í Facebook-færslu sinni í gær.

Samninganefndir ljósmæðra og ríkisins koma til með að funda á fimmtudaginn eftir viku, en þá verða einungis örfáir dagar í að umræddar uppsagnir taki gildi og sömuleiðis skammur tími í að fyrirhugað verkfall ljósmæðra hefjist. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert