Eitthvað í loftinu í Rússlandi

„Það er eitthvað í loftinu hérna [í Rússlandi]. Það er einhver góður andi sem verður allavega áfram meðan Ísland er að spila,“ segir Baldur Kristjánsson ljósmyndari um stemninguna á HM í Rússlandi.

Baldur var nýlega kominn til Volgograd, þar sem íslenska landsliðið tekur á móti Nígeríu í dag, frá Moskvu þegar blaðamaður hafði samband við hann.

Baldur vakti athygli í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum fyrir og eftir leik Íslands á móti Argentínu þar sem hann mætti á leikinn í markmanns heilgalla til heiðurs Hannesi Halldórssyni markmanni og hetju íslenska liðsins.

Baldur mætti
Baldur mætti "full-kit" á leikinn á móti Argentínu. Ljósmynd/Aðsend

Búinn að sjá allan skalann hjá Hannesi

Baldur og Hannes hafa verið góðir vinir síðan þeir kynntust í Verzlunarskóla Íslands. Samband þeirra byrjaði þó ekki eins og best var á kosið enda voru þeir andstæðingar inn á knattspyrnuvellinum þegar þeir voru yngri. „Við urðum vinir í Verzló. Hann er einu ári yngri en ég og ég var alltaf markmaður. Við vorum búnir að vera semi óvinir sko, þoldum ekki hvorn annan frá því að við vorum litlir,“ segir Baldur.

Hannes gerði Baldur enn og aftur stoltan á móti Argentínu.
Hannes gerði Baldur enn og aftur stoltan á móti Argentínu. Ljósmynd/Aðsend

Baldur rifjar upp þegar hann fór fyrst að sjá Hannes spila en það var frægur leikur þegar Hannes lék með Leikni í Breiðholti árið 2004. Leikurinn var úrslitaleikur við Víking Ólafsvík um að komast upp um deild og gerði Hannes afdrífarík mistök sem urðu til þess að Leiknir sat eftir í 2. deild það árið. Á laugardaginn síðastliðinn, í leik á móti Argentínu, varði Hannes svo víti frá einum besta leikmanni knattspyrnusögunnar, sjálfum Lionel Messi.

„Maður er búinn að sjá allan skalann,“ segir Baldur og hlær. Hann á erfitt með að lýsa því sem fór í gegnum huga hans þegar Hannes varði vítið frá Messi. „Einhvern veginn bara kom þetta víti, og þetta gerðist svo snöggt. Allt í einu var hann búinn að verja og allir bara í einhverjum trylling sko,“ rifjar hann upp.

„Enn og aftur er hann að gera mann stoltan,“ bætir Baldur við, ánægður með sinn mann.

Spáði fyrir um vörslu Hannesar

Baldur var þó ekki mjög stressaður fyrir vítaspyrnuna enda hafði Ólafur Páll vinur hans spáð því fyrir leikinn að Hannes myndi verja vítaspyrnu frá Messi. „Maður getur náttúrulega hljómað vitur eftir á en Óli Páll, vinur minn sem var með mér, hann var án gríns búinn að tala um þetta fyrir leikinn. Nokkrum sinnum sko, að Hannes væri að fara verja víti frá Messi. Hann var búinn að halda þessu á lofti mjög oft. Þetta var ótrúlegt sko,“ segir Baldur.

Ólafur Páll var búinn að segja það ítrekað fyrir leik …
Ólafur Páll var búinn að segja það ítrekað fyrir leik að Hannes myndi verja víti frá Messi. Ljósmynd/Aðsend

Baldur fór á Evrópumótið í Frakklandi fyrir tveimur árum og segir margt líkt með stemningunni þar og í Rússlandi núna. Leikurinn á móti Nígeríu verður fimmti leikur sem Baldur sér með Íslandi á stórmóti. Hann ætlar ekki heim til Íslands fyrr en strákarnir hafa lokið keppni.

„Ég hef ekki ennþá séð Ísland tapa á stórmóti,“ segir hann að lokum.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert