Flestir bara komnir á flotta tónleika

Hátíðarsvæðið í Laugardal var óðum að fyllast af fólki er …
Hátíðarsvæðið í Laugardal var óðum að fyllast af fólki er ljósmyndari mætti á svæðið í kvöld. mbl.is/Valli

„Auðvitað eru alltaf einhverjir sem eru að drekka en meginparturinn af öllum unglingum sem eru þarna inni eru bara í þeim tilgangi að hlusta á góða tónlist og fara svo heim,“ segir Þórhildur Rafns Jónsdóttir deildarstjóri unglingastarfs hjá frístundamiðstöðinni Kringlumýri.

Hún er á meðal þeirra starfsmanna Reykjavíkurborgar sem koma að svokallaðri athvarfsvakt á tónlistarhátíðinni Secret Solstice um helgina og segir mörgu ábótavant í gæslunni hjá hátíðinni, en að aðstandendur séu að reyna að bæta sig.

Þórhildur var nýkomin heim af hátíðinni er mbl.is náði af henni tali og hún sagði stemninguna í Laugardalnum hafa verið góða í kvöld.

„Við erum búin að sjá miklar betrumbætur í dag frá því í gær. Þeir eru farnir að taka strangar á því að fólk sýni skílríki og eru að skipta út armböndum ef það voru látin röng armbönd á ungmenni í gær. Við sjáum alveg að þeir eru að reyna að taka sig á og að þetta hafi í raun bara verið mistök hjá þeim í gær að einhverjir hafi farið í gegn án þess að sýna skílríki,“ segir Þórhildur.

„Okkur finnst þau allavega vera að reyna að vinna sína vinnu og við erum bara að vinna okkar vinnu inni á svæðinu við að tryggja öryggi ungmenna og reyna að koma þeim til síns heima ef þau eru ekki með forráðamann á svæðinu,“ segir Þórhildur um starf athvarfsvaktarinnar, sem einnig er starfrækt á stórum viðburðum á borð við Menningarnótt og 17. júní.

Reykjavíkurborg hefur að hennar sögn aldrei verið með fleiri starfsmenn inni á svæðinu til þess að fylgjast með ungmennum og ná til þeirra á meiri jafningjagrundvelli en ef til vill gæslumenn hátíðarinnar geta.

„Okkar aðalverkefni er að þarna sé enginn í vondu ásigkomulagi og geti ekki sjálfur séð um sig,“ segir Þórhildur.

Tryggja þurfi að forráðamenn taki ábyrgð

Þórhildur segir mikið af ungu fólki á hátíðinni og að flestir séu þar í jákvæðum tilgangi.

„Það er fullt af flottum atriðum þarna sem eru í þessari tísku-tónlistarbylgju sem er hjá þessu unga fólki og frábært tækifæri fyrir þau að fá að fara á flotta tónleika,“ segir Þórhildur.

Hún segist þó alltaf setja spurningamerki við viðburði þar sem allir eigi að vera saman, bæði unglingar og fullorðnir sem séu að drekka og djamma. Hins vegar segir hún það skýrt í reglum Secret Solstice að það sé 18 ára aldurstakmark á hátíðina og að forráðamenn eigi að bera ábyrgð á þeim sem yngri eru.

„Það er í reglum Solstice að ef þú ert forráðamaður þá ert þú með þeim sem þú berð ábyrgð á allan tímann,“ segir Þórhildur. Því þýði ekki að forráðamenn ungmenna, sem sagt hafi ætla að taka ábyrgð, séu kannski bara farnir að djamma eða skilji ungmennin eftir strax við innganginn.

Þórhildur segir að foreldrar þurfi að vera vakandi fyrir þessu, þar sem það fylgi því ábyrgð að senda börn sín á tónlistarhátíðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert