„Kjöraðstæður fyrir unglingadrykkju“

Frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice í Laugardalnum í kvöld.
Frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice í Laugardalnum í kvöld. mbl.is/Valli

Sigrún Theódórsdóttir varaformaður foreldrafélags Laugalækjarskóla segir að aðstandendum tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice hafi mistekist að standa við gefin loforð þess efnis að sporna við unglingadrykkju á hátíðinni.

Björn Teitsson fjölmiðlafulltrúi hátíðarinnar segir gesti hafa verið fyrirmyndar í gærkvöldi og að athugasemdir hafi ekki borist til skipuleggjenda hátíðarinnar vegna unglingadrykkju, en að þeir vilji þó hlusta á áhyggjufulla foreldra.

Sigrún var ásamt fleiri foreldrum á foreldrarölti um svæðið í gærkvöldi og sagði ljóst að armbandakerfi hátíðarinnar, sem eigi að tryggja að fólk yngra en 20 ára geti ekki keypt áfengi inni á svæðinu, gangi ekki upp. 

„Það náttúrlega fauk út um gluggann við það að það er ekki beðið um skilríki þegar þú sækir þér miðann, þannig að það brást hjá þeim,“ segir Sigrún sem segist hafa heyrt „fjöldamörg“ dæmi af því að fólk undir 20 ára aldri hafi fengið armbönd sem ætluð eru þeim sem komnir eru á áfengiskaupaaldur.

Leitað á hátíðargestum við innganginn í kvöld.
Leitað á hátíðargestum við innganginn í kvöld. mbl.is/Valli

Armböndin á Secret Solstice eru rafræn og fara allar peningagreiðslur innan hátíðarsvæðisins fram með þeim. Sigrún staðhæfir að hægt hafi verið að nota armböndin sem ætluð eru þeim sem eru yngri en 20 ára til áfengiskaupa.

„Það ræddi ég við lögreglu í gærkvöldi og lögregla varð vitni að því. Það er náttúrlega bara kolólöglegt,“ segir Sigrún og bætir við að unglingar allt niður í 15 ára hafi verið ölvuð inni á svæðinu.

Þetta segir Björn að geti ekki staðist, þar sem skrá þurfi hvert einasta armband á kennitölu við innganginn, nema reyndar sérstaka boðsmiða, en þeir sem séu undir 18 ára aldri þurfi að vera í fylgd með forráðamönnum til þess að nýta þá til að komast inn á svæðið. Séu þeir miðar nýttir til áfengiskaupa hljóti það því að vera með samþykki forráðamanna.

Þá segir Björn það alveg á hreinu að armböndin fyrir þá sem eru yngri en 20 ára gildi ekki til áfengiskaupa.

Kjöraðstæður fyrir unglingadrykkju

Sigrún segir einnig ekkert eftirlit með vímuefnaneyslu inni á hátíðarsvæðinu, en reyndar hafi verið fíkniefnahundur við innganginn. „Fólk var stoppað þar, en þegar þú ert kominn inn á svæðið reykir fólk bara kannabis alveg óáreitt,“ segir Sigrún.

Þess ber að geta að í fyrra voru fjórir til fimm óeinkennisklæddir lögreglumenn við fíkniefnaeftirlit á hátíðinni og nutu þeir liðsinnis tveggja lögregluhunda.

Sigrún segir að foreldrar barna og unglinga í hverfinu séu uggandi vegna hátíðarinnar.

„Það sem okkur hryllir við er að það er verið að festa í sessi, að okkur finnst, svona „ídeal“ útihátíð þar sem eru allar kjöraðstæður fyrir unglingadrykkju og eiturlyfjaneyslu. Það er verið að „normalisera“ neyslu fyrir ungu krakkana hérna í hverfinu. Þau eru að tipla hérna í kring og þetta er allt mjög spennandi,“ segir Sigrún, sem ætlar aftur á foreldraröltið í kvöld.

Fólk á öllum aldri hefur verið á hátíðarsvæðinu í dag.
Fólk á öllum aldri hefur verið á hátíðarsvæðinu í dag. mbl.is/Valli

Tvískinnungur Þróttara

Sigrún gagnrýnir einnig að Knattspyrnufélagið Þróttur leigi hluta félagssvæðis síns undir hátíðina í fjáröflunarskyni.

„Það er sorglegur tvískinnungur, þegar þau sem standa fyrir forvarnarmálum í hverfinu eru farin að afla fjár með því að stuðla að svona hátíðum. Það er ekki þannig að þarna sé bara tvítugt fólk og eldra að skemmta sér undir áhrifum. Manni finnst verið að festa í sessi þarna útihátíð þar sem eru bara allar aðstæður fyrir unglingadrykkju og grasreykingar. Og við bara spyrjum okkur, viljum við hafa þetta svona?“ segir Sigrún.

Gestirnir til fyrirmyndar

„Hvert einasta ár er reynt að finna eitthvað að, en það eina sem ég sé er bara eitthvað fólk að skemmta sér mjög fallega,“ segir Björn, sem segist vilja líta á það jákvæða við hátíðina.

„Það eina sem ég hef tekið eftir er að það er fullt af ungu fólki hérna og það er til fyrirmyndar, hefur hegðað sér rosalega vel. Það er ekki yfir neinu að kvarta, sem ég hef tekið eftir allavega.“

Hann segir að ábendingar á borð við þær sem Sigrún hefur hafi ekki borist beint til aðstandenda hátíðarinnar.

„Væri um eitthvað þannig að ræða viljum við hlusta á fólk og hlusta á áhyggjufulla foreldra,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert