„Við erum bara í vinnunni“

Margir geta ekki losnað frá störfum sínum til þess að …
Margir geta ekki losnað frá störfum sínum til þess að fylgjast með leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki hafa allir þann möguleika að losna frá starfi á meðan leikur Íslands og Nígeríu fer fram í Volgograd í dag. Þó eru bundnar vonir við að lítið álag verði á þeim starfsstöðum svo hægt verði að fylgjast með.

Starfsmaður Landhelgisgæslunnar segir í samtali við mbl.is kollega sína „allra vilja gerðir til þess að fylgjast með leiknum.“ Hann segir veðurfar og spá góða þannig að það mun vonandi gefast færi til þess að horfa eitthvað á leikinn.

Jón Sigtryggsson, starfsmaður Neyðarlínunnar, segir rólegt hafi verið hingað til í dag og að eitthvað bendi til þess að álagi minnki jafnvel á meðan leik stendur, enda fækkaði símtölum verulega á meðan leikur Íslands og Argentínu fór fram. „Við vonum bara að allir haldi sér inni,“ segir hann og hlær.

mbl.is/Sigurður Bogi

Umferð verður líklega ekki stöðvuð um Hvalfjarðargöng vegna leiksins og verða því starfsmenn Spalar á sínum stað í gjaldskýlinu. Þórarinn Helgason, starfsmaður Spalar, segir í samtali við mbl.is að umferðin sé nokkuð þétt, en hugsanlega dregur eitthvað úr henni þegar leikurinn fer fram.

„Nema kannski verður eitthvað um útlendingum á ferð. Ég veit ekki hversu mikinn áhuga þeir hafa á þessu,“ segir hann. Þórarinn segir að reynt verður að fylgjast með leiknum, þó ekki nema með öðru auganu öðru hvoru.

„Við erum bara í vinnunni,“ segir Jón Valdimarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, þegar blaðamaður spyr hvort eitthvað tækifæri mun vera til þess að horfa á leikinn í dag. Hann segir að lögreglan muni sinna umferðareftirliti og öðrum skyldustörfum, einnig verður nokkur mannsöfnuður í gilinu í dag. Hann telur það verða fá tækifæri til þess að fylgjast með leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert