Taka fréttum mjög alvarlega

Frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice.
Frá tónlistarhátíðinni Secret Solstice. mbl.is/Hanna

Starfsfólk tónlistarhátíðarinnar Secret Solstice á að fá alla hátíðargesti til að sýna skilríki til að sanna aldur sinn. Hafa tilmæli um þetta verið ítrekuð, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá aðstandendum hátíðarinnar.

Tilefnið er sagt felast í fréttum af áfengiskaupum einhverra hátíðargesta sem ekki hafi náð 20 ára aldri.

Segir í yfirlýsingunni að í gær hafi borist fréttir af því, „að fólk sem hafði ekki náð áfengiskaupaaldri væri samt sem áður að kaupa áfengi, þar sem það hafði orðið sér úti um armbönd sem eru merkt 20+ til að staðfesta að viðkomandi hafi náð tilskyldum aldri.“

Slíkum fréttum taki skipuleggjendur mjög alvarlega, „enda á starfsfólk hátíðarinnar við aðalinngang tónleikasvæðisins, sem og allt fólk sem starfar við veitingasölu, að fá alla hátíðargesti til að sýna skilríki til að sanna aldur sinn.“

Lögreglan hafi þá einnig verið með stöðuga viðveru og er hún sögð meðvituð um þessa tilhögun. Hún fylgist með að allt fari rétt fram.

Fólk hafi notið tónlistar og samvistar

„Sömuleiðis starfar hátíðin með starfsfólki frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar sem ganga um tónleikasvæðið til að ganga úr skugga um að allt fari sem best fram. Unnið er að því á hverju ári að bæta aðstæður fyrir hátíðargesti til að gera upplifun þeirra sem besta og sem jákvæðasta. Skipuleggjendum er mikið kappsmál að hátíðin fari sem best fram, hér eftir sem hingað til og það hefur hún gert í ár - þar sem fólk hefur notið tónlistar og samvistar í fallegu samfélagi í miðri Reykjavíkurborg,“ segir í yfirlýsingunni. 

„Á svæðinu eru hátt í 5000 hátíðargestir sem koma erlendis frá og hafa þeir talað einstaklega vel um hátíðina og skemmt sér konunglega. Það sama má segja um listamenn hátíðarinnar, innlenda sem erlenda, sem hafa lýst yfir mikilli ánægju með allt skipulag og fyrirkomulag Secret Solstice, og bera landinu okkar jafnframt einstaklega góða söguna. Á svæðinu verða líklega um 15 þúsund hátíðargestir í kvöld, laugardag, og erum við sannfærð um að tónlist, skemmtun og jákvæðni verði í fyrirrúmi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert