Frá Aleppo til Akureyrar

Reem var ósköp venjuleg unglingsstúlka þegar stríðið skall á í …
Reem var ósköp venjuleg unglingsstúlka þegar stríðið skall á í Sýrlandi. Fjölskyldan flúði til Líbanons en var svo boðið hæli á Íslandi. Reem finnst gott að finna fyrir öryggi og ró en segir síðustu tvö árin á Íslandi hafa verið erfið. Henni gengur illa að eignast vini og telur að fólk dæmi hana vegna útlits og slæðunnar sem hún kýs að bera. mbl.is/Ásdís

Það er erfitt að setja sig í spor unglingsstúlku sem þarf að búa við stríð, yfirgefa heimalandið, missa heimili sitt, týna vinunum, flytja á hjara veraldar, læra nýtt og illskiljanlegt tungumál og reyna að fóta sig í tilverunni. Reem Almohammad er falleg tvítug kona og býr hún á Akureyri með stórfjölskyldunni; ömmu, foreldrum og fimm yngri bræðrum. Hún kom hingað í stórum hópi sýrlenskra flóttamanna sem dvalið höfðu í Líbanon eftir að hafa flúið stríðið.

Reem hefur nú búið á Íslandi í rúm tvö ár og þrátt fyrir ró og frið norðan heiða er lífið ekki auðvelt. Íslenskan vefst fyrir henni þótt blaðamanni finnist hún tala skýra og fína íslensku. Hún hefur gengið í skóla með jafnöldrum sínum en segist ekki hafa eignast neina vini; það gengur illa að komast inn í vinahópa og henni líður eins og hún sé utanveltu. Nýlega talaði Reem á málþingi um líf sitt eftir komuna til Íslands og skemmst er frá því að segja að það var ekki þurr hvarmur í salnum. Nú er hún tilbúin að segja blaðamanni frá lífinu í stríðinu og frá lífinu sem flóttamaður á Íslandi. Við höfum túlk okkur til halds og trausts og faðir hennar fær að vera með og leggja orð í belg. Kristín S. Bjarnadóttir, sem stóð fyrir málþinginu, er einnig í stofunni og hlustar.

Reem segir að þrátt fyrir að Íslendingar séu allir af vilja gerðir að létta flóttamönnum lífið sé margt sem mætti betur fara. Saga þessarar ungu konu er saga sem þarf að heyrast.

Vonuðu að ástandið myndi batna

Fyrir sjö árum gekk lífið sinn vanagang í Aleppo í Sýrlandi hjá Almohammad-fjölskyldunni. Faðirinn, Khattab, var fyrirvinnan og kenndi ensku í menntaskóla en móðirin Halima hafði í nógu að snúast með þá fimm ung börn. Reem er elst af systkinunum og eina stúlkan. Í Sýrlandi var Reem eins og hver annar unglingur; spilaði tennis, elskaði að dansa og teikna og hlæja með vinkonunum. Á þessum tíma var mikið líf og fjör á götum borgarinnar, ys og þys og læti og fólk borðaði gjarnan utandyra á veitingahúsum, enda hlýtt í veðri. Árið 2011 skall á stríð og allt breyttist. Ári síðar náði stríðið til Aleppo en þá var Reem að klára grunnskólann og á leið í miðskóla. Sumarið var framundan en það reyndist afdrifaríkt. Smátt og smátt breyttist allt í borginni; allt varð dýrara og útgöngubann var eftir klukkan tíu á kvöldin. Fjörið á götum borgarinnar á kvöldin var ekki meir. Tónlistin var þögnuð og skothljóð glumdu í mannlausum strætum.

„Við heyrðum í skotárásum og það fór að bera á matarskorti. Brauð var til dæmis ekki fáanlegt. Við fengum fréttir af byggingum sem voru skemmdar vegna sprengja og af fólki að deyja,“ segir Reem. Þau yfirgáfu borgina fljótlega og fóru í útjaðar borgarinnar í sveitina til afa og ömmu. Faðir Reem hélt þá einn af stað til Líbanons til þess að vinna fyrir fjölskyldunni, en vinnan hans hvarf með stríðinu. Móðirin var því ein eftir í borginni með börnin fimm, en eitt átti eftir að bætast í hópinn síðar.

„Við héldum að við þyrftum bara að vera þar í stuttan tíma og gætum svo snúið aftur heim,“ segir Reem og útskýrir að eftir þrjá, fjóra mánuði í sveitinni hafi þau snúið aftur til síns heima í Aleppo.

„Við vorum þá þar í mánuð og það var mjög erfitt. Það voru svo miklar árásir gerðar á borgina að við vorum í lífshættu. Við vorum vakandi nánast allan sólarhringinn og mjög hrædd. Börn máttu ekki fara út og aðrir fóru ekki langt að heiman,“ segir Reem.

Hvenær var þér sagt að þið þyrftuð að flýja land?
„Við vorum alltaf að bíða og áttum alltaf von á að ástandið myndi batna, að allt myndi róast. Þá komu hermenn frá leyniþjónustunni og tilkynntu okkur að ef við færum ekki strax myndum við deyja.“

Þegar Reem lenti í Keflavík biðu hennar fjölmiðlamenn sem vildu …
Þegar Reem lenti í Keflavík biðu hennar fjölmiðlamenn sem vildu ná myndum. Hún segir það hafa verið frekar óþægilegt enda var hún dauðþreytt eftir ferðalagið. mbl.is/Eggert

Á tvær ljósmyndir úr æsku

Hvernig leið þér á þessum tíma?
„Manni fannst tíminn standa í stað. Ég var frosin.“
Hún segir þau hafa haldið til í neðanjarðarbyrgi í kjallara blokkarinnar ásamt öðrum íbúum hússins, um sextíu manns. Sprenging hafði eyðilagt vatnslagnir í byggingunni og rann því vatn inn í neðanjarðarbyrgið og sváfu þau á blautum dýnum. Matur var af skornum skammti en nóg til þess að komast af. Dag einn var ljóst að það var annaðhvort að láta lífið eða forða sér burt í hvelli.

„Mamma sagði okkur krökkunum að fara í íbúðina og grípa nokkra hluti því við þyrftum að flýja borgina. Við þyrftum að finna bíl eða rútu sem gæti flutt okkur í burtu en það var fjöldi manns að gera slíkt hið sama,“ segir Reem. „Ég fór upp og fór að safna saman fötum og mörgum myndum. Mamma sagði mér að ég gæti ekki tekið svona mikið af dóti. Hún sagðist telja upp að tíu og við mættum safna saman eigum á meðan hún teldi. Þegar hún var búin að telja hratt upp að tíu máttum við ekki taka meira. Ég tók bara tvær myndir frá því að ég var lítil. Ein er af mér þegar ég er lítil og nýbyrjuð að ganga og hin er af mér að byrja í sex ára bekk,“ segir hún. Þetta eru einu myndirnar sem hún á í dag af sér sem barni.

Þarna ríkti mikið hræðsluástand og ringulreið. „Mamma var mjög hrædd, ein með fimm ung börn og pabbi ekki þarna. Hún vildi hlaupa í burtu og finna far með bíl eða rútu.“

Þurftir þú að hjálpa mömmu þinni með öll yngri systkinin?
„Ég var líka mjög lítil, bara fimmtán ára. Og ég skildi ekki hvað var að gerast, bara að mamma var hrædd og vildi fara strax. Hún sagði að ef hún myndi deyja ættum við börnin að halda áfram að hlaupa. Svo fórum við út og þar var fjöldi manns að hlaupa. Bara eitthvað í burtu,“ segir hún.

„Okkur fannst samt alltaf að við myndum geta snúið til baka síðar. Við vorum vongóð og héldum að þetta væri tímabundið. Við byrjuðum á að fara til afa og ömmu og þaðan með rútu til Líbanons,“ segir hún. Hún segir rútuna hafi verið yfirfulla; troðfulla af fólki að flýja og jafnvel hafi þurft að henda út farangri sem ekki komst fyrir. Þrátt fyrir stopult netsamband náðu þau sambandi við föðurinn og gat fjölskyldan sameinast í Líbanon þar sem faðirinn kenndi í skólum, þrátt fyrir að ríkisstjórn Líbanons bannaði þeim að vinna. Í Líbanon dvöldu þau í þrjú löng ár og hluta af þeim tíma gátu börnin ekki gengið í skóla.

Almohammad-fjölskyldan kom til Íslands í janúar 2016.
Almohammad-fjölskyldan kom til Íslands í janúar 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Aldrei heyrt minnst á Ísland

Hvernig leið ykkur að vita að þið væruð að fara til Íslands?
„Ég vissi ekkert hvar Ísland var og hafði aldrei heyrt þess getið. Meira að segja pabbi spurði hvar landið væri,“ segir Reem en aðeins liðu tveir mánuðir frá því að þau fengu boðið þar til þau fóru um borð í flugvélina til Íslands.

„Mér fannst þetta ekki góð hugmynd. Ég hélt að það yrði ekkert skárra en í Líbanon, að við værum ekki velkomin. Og að ég myndi ekki fá að fara í skóla og yrði útskúfuð úr samfélaginu,“ segir Reem og er hugsi. „Mér fannst að um leið og ég myndi fara til Íslands myndi vonin um að snúa aftur heim hverfa endanlega.“

Geturðu lýst fyrsta deginum á Íslandi?
„Við hittum fullt af fólki á flugvellinum og þar voru fjölmiðlamenn að taka myndir. Það var dálítið óþægilegt og yfirþyrmandi,“ segir Reem.  Ferðinni var haldið áfram og flogið frá Keflavík til Akureyrar. „Ég var mjög þreytt eftir langt ferðalag. Það var mjög kalt hér og ég hafði aldrei séð jafn mikinn snjó áður,“ segir hún en þess má geta að úti var sautján stiga frost og allt á kafi í snjó þennan janúardag á Akureyri árið 2016.

„Það var tómlegt í bænum þegar við keyrðum inn í bæinn frá flugvellinum á Akureyri. Það var enginn á ferli. Við vorum stór hópur Sýrlendinga í rútunni og allir horfðu bara út um gluggana og enginn sagði orð. Ég held að við höfum verið í smá sjokki. Það var svo mikill kuldi.“

Hvað finnst þér núna það besta við að búa á Akureyri?
„Hér er ró. Og mér er sýnd virðing. En veðrið er erfitt,“ segir hún og hlær. „En hér er mjög fallegt á sumrin.“

Námið ófullnægjandi

Nú ertu búin að vera rúmlega tvö ár á Íslandi, hvernig hefur þér liðið hér?
„Það er búið að vera erfitt. Tungumálið er erfitt, í byrjun heyrði ég fólk tala en skildi ekkert. Ég var í fyrstu glöð að sjá nýtt land og nýja þjóð og ég var ánægð með húsið mitt. Ég þarf ekki að óttast stríð eða ógnir og get farið í skóla.“

Reem hóf nám í íslensku hjá Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar en námskeiðið stóð yfir í einn mánuð. Nú stundar hún nám í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Reem talar ágæta íslensku í dag þótt málfræðin vefjist fyrir henni. Hún segir oft hafa verið erfitt í tímum í skólanum, sérstaklega í fyrstu, þar sem hún skildi ekki nóg í málinu. „Þetta var bæði skrítið og erfitt ástand, að skilja ekki neitt. Ég hélt ég myndi ná tökum á íslenskunni fyrr,“ segir Reem en hvorki henni né pabba hennar fannst kennsluaðferðin hafa skilað nægilegum árangri.

„Mér finnst gaman að vinna á leikskólanum með börnunum og …
„Mér finnst gaman að vinna á leikskólanum með börnunum og þau kenna mér margt í íslensku. Ég ætla svo að læra að keyra bíl seinna. Minn draumur er að læra læknisfræði og fá tækifæri eins og aðrir,“ segir Reem. mbl.is/Ásdís

Ekki tekin inn í vinahópa

Hefurðu eignast vini hér?
„Nei, það er mjög erfitt. Það eru tungumálaörðugleikar og svo er útlit mitt öðruvísi og ég er með slæðu. Það eru vinahópar í skólanum og ég komst ekki inn í neinn,“ segir hún. „Það er mikill munur á ungu fólki hér og í Sýrlandi, unglingar eru opnari í Sýrlandi og vilja kynnast nýjum nemendum.“

Fannstu fyrir fordómum vegna slæðunnar?
„Ég held að fólk hugsi að ég sé eitthvað sérstök, öðruvísi. Og því var ég látin vera. Sumir halda kannski af því að ég er með slæðu að ég hafi ekki áhuga á að kynnast þeim,“ segir hún en nefnir að það sé alfarið hennar val að ganga með slæðu. Henni þyki það fallegt, en hún er eina stúlkan í skólanum með slíka slæðu. „Ég er ekki að spyrja krakka af hverju þau eru með hárið litað grænt, en þau spyrja mig af hverju ég sé með slæðuna, eða hvort ég sé með hár undir henni. Það er fáránlegt. Ég er að bíða eftir að krakkarnir venjist og skilji af hverju ég er með slæðu, að það skipti ekki máli að ég sé með slæðu.“

Pabbinn skýtur inn í að hún segi ýmislegt heima sem gefi til kynna fordóma í skólanum. Ef hún settist við borð í gryfjunni í matartímum kom það fyrir að krakkarnir yfirgáfu borðið.
„Einu sinni tók ég matinn minn og settist hjá krökkum og þau horfðu á mig og ég fann að ég var ekki velkomin þarna. Ég reyndi að blanda geði við krakkana en fékk ekki góðar móttökur.“

Það var allt á kafi í snjó og -17°C á …
Það var allt á kafi í snjó og -17°C á Akureyri í janúar árið 2016 þegar hópur sýrlenskra flóttamanna kom þangað. Reem hafði aldrei á ævi sinni séð svona mikinn snjó. Úr einkasafni

Dreymir um læknisfræði

Reem var nýlega boðið að tala á málþingi sem Kristín S. Bjarndóttir stóð fyrir í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. „Málþingið var undir yfirskriftinni Málþing um blæbrigði lífs og dauða og var markmiðið annars vegar að gefa með þessum hætti af mér til samfélagsins sem ól mig en hins vegar að standa fyrir söfnun fyrir sýrlensk börn í neyð, í samráði við UNICEF á Íslandi. Erindin voru á persónulegum nótum og það var þarna sem hún Reem vann hug og hjörtu viðstaddra með einlægu erindi sínu sem nísti inn að hjartarótum og kom tárunum út á fólki þegar hún sagði sögu sína,“ segir Kristín sem nefnir að söfnunarreikningurinn verði opinn fram yfir mánaðamótin og þeir sem vilja styðja sýrlensk börn í neyð geta lagt inn á 0162-26-13668, kt.130668-5189.

Hvernig var að tala fyrir framan fjölda fólks?
„Það var erfitt en um leið fannst mér að ég þyrfti að gera það. Þetta hjálpar málstað Sýrlendinga og ég vildi að fólk vissi hvers konar erfiðleika ég hef gengið í gegnum eftir að ég kom hingað. Fólk telur að ég sé hamingjusöm en ég á líka í erfiðleikum,“ segir hún. „Þegar maður er í stríði hugsar maður fyrst og fremst um að lifa af en sem flóttamaður hef ég áhyggjur af minni skólagöngu, lífinu og framtíðinni,“ segir Reem sem einnig segist oft hugsa heim til Sýrlands með söknuði. Hún missti samband við marga vini og veit ekki hvort þeir eru lífs eða liðnir.

Ef stríðið myndi enda í dag, færuð þið aftur heim?
„Ekki strax. Húsið er farið. Það er allt eyðilagt.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina?
„Ég staldra stundum við og hugsa um hvað ég er búin að gera síðustu tvö árin. Ég er búin að læra nýtt tungumál og skil núna hvað fólk er að segja. Mér finnst gaman að vinna á leikskólanum með börnunum og þau kenna mér margt í íslensku. Ég ætla svo að læra að keyra bíl seinna. Minn draumur er að læra læknisfræði og fá tækifæri eins og aðrir. Mig dreymir en ég sé ekki að það muni rætast.“

Ertu með eitthvert plan B?
„Nei. Ég veit að það er erfitt en mig langar bara að verða læknir.“

Viðtalið í heild birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert