Varað við hvassviðri eða stormi

Vindaspá klukkan 8 í fyrramálið, mánudag.
Vindaspá klukkan 8 í fyrramálið, mánudag. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðurstofan varar við hvassviðri eða stormi á austanverðu landinu og hálendinu í nótt og fyrir hádegi á morgun. Getur vindhraði víða farið upp í 30 m/s. Gul viðvörun er í gildi. Sjá nánar hér.

Í athugasemdum veðurfræðings kemur eftirfarandi fram: „Hvessir seint í kvöld og nótt, búast má við hvassviðri eða stormi um landið austanvert í nótt og fyrir hádegi á morgun með snörpum vindhviðum við fjöll, víða yfir 30 m/s. Fólk er beðið um að huga að lausum munum, en tjöld, garðhúsgögn og trampólín gætu fokið. Um litla lægð er að ræða sem fer allhratt yfir landið, veðurspá getur því breyst hratt og mikilvægt að fylgjast með veðurspám.“

Veðurvefur mbl.is.

Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að um 1200 kílómetrum suður af Reykjanesi sé 1009 mb lægðardrag sem fari hratt til norðurs. Þetta drag dýpkar og þegar að kemur upp að landinu í kvöld er það orðið að 995 mb lægð, og mun fara að rigna í flestum landshlutum, talsverð rigning verður sunnan- og vestanlands. 

„Á leið sinni yfir landið heldur lægðin áfram að dýpka og er útlit fyrir að hún verið nokkuð kröpp. Það gengur í hvassviðri eða storm í nótt og má búast við að veðurhæðin nái hámarki snemma á morgun, 15-23 m/s en hægari vindur verður um vestanvert landið. Dregur úr vindi og úrkomu með deginum, suðvestan 8-15 m/s og dálítil rigning seint annað kvöld en lengst af þurrtnorðaustantil.“

Úrkomuspá klukkan 1 í nótt.
Úrkomuspá klukkan 1 í nótt. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á þriðjudag:
Suðvestan 8-13, en eftir hádegi. Skýjað að mestu og stöku skúrir, en bjart með köflum norðan- og austanlands. Hiti 8 til 15 stig að deginum, hlýjast á Austurlandi. 

Á miðvikudag:
Fremur hæg breytileg átt. Rigning um tíma um landið suðaustanvert, en annars skýjað að mestu. Léttir víða til um kvöldið. Hiti breytist lítið. 

Á fimmtudag:
Hæg suðlæg átt, bjartviðri, en gengur í suðaustan 8-15 m/s með rigningu sunnan- og vestanlands síðdegis, en hægari og þykknar upp norðaustanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands. 

Á föstudag og laugardag:
Útlit fyrir suðlæga átt. Vætusamt sunnan- og vestanlands, en annars úrkomulítið. Hiti 10 til 15 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert