Ætlar að verða fyrst til að klára

Elín ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur …
Elín ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en WOW Cyclothonið verður fyrsta hjólreiðakeppnin sem hún tekur þátt í. mbl.is/Valli

Lyfjafræðingurinn Elín V. Magnúsdóttir ætlar að verða fyrsta konan til að ljúka við WOW Cyclothon hjólreiðahringinn þegar hjólreiðakeppnin fer fram í vikunni. Hún ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, en þetta er fyrsta hjólreiðakeppnin sem hún tekur þátt í.

„Ég byrjaði að hjóla að staðaldri í vinnuna fyrir svona tíu árum og hef hjólað mikið síðan,“ segir Elín. „Ég hef gaman að því að hjóla langt. Ég hef hjólað tvisvar á æskuslóðirnar rétt hjá Kirkjubæjarklaustri.“

Hún segist hafa byrjað að hjóla fyrst heilsunnar vegna, en það hafi ekki skemmt fyrir að hjólreiðar séu þar að auki umhverfisvænn samgöngumáti.  

Elín V. Magnúsdóttir ætlar að reyna að klára WOW Cyclothon …
Elín V. Magnúsdóttir ætlar að reyna að klára WOW Cyclothon einstaklingskeppnina fyrst kvenna. mbl.is/Valli

Elín hefur verið í margs konar útivist í gegnum ævina, og mikið í fjallgöngum. „Ég var að skokka fyrir einhverjum árum síðan og á tímabili tók ég þátt í almenningshlaupum, og ég hljóp Laugarveginn tvisvar,“ segir hún.

Fjórir eru skráðir í einstaklingskeppnina í ár en keppendur í heildina eru tæplega þúsund talsins, þar af eru langflestir skráðir í flokki tíu manna liða. Einstaklingskeppnin hefst á þriðjudag og hafa keppendur þrjá og hálfan sólarhring til að ljúka hringnum.

„Þetta er búið að vera að gerjast í smá tíma, en ég fór að hugsa um þetta í alvöru síðasta haust,“ segir Elín spurð út í aðdraganda ákvörðunarinnar. „Systir mín var aðeins skeptísk á þetta í fyrstu og taldi þetta svolítið stórt verkefni. En hún féllst á að koma með í stuðningsliðið mitt,“ segir Elín en þriggja manna stuðningshópur fylgir henni hringinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert