Dæmdur fyrir líkamsárás gegn syni sínum

mbl.is/Hanna

Landsréttur staðfesti á föstudag sjö mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm yfir manni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás gegn fjögurra ára syni sínum. Tók maðurinn son sinn kverkataki þannig að punktblæðingar mynduðust í andliti drengsins.

Brotið átti sér stað árið 2016. Í dómi héraðsdóms kom fram að tilkynningar hafi borist barnaverndarnefnd frá leikskóla drengsins og heimilislækni um að drengurinn væri með mikla áverka og hálsi og í andliti eftir föður sinn.

Í forsendum Landsréttar kom fram að maðurinn hafi veist með ofbeldi gegn syni sínum á heimili þeirra, tekið hann kverkataki með annarri hendinni og ýtt aftan á háls hans með hinni hendinni í því skyni að fá drenginn til að taka inn vítamíntöflu. Drengurinn hafi af því hlotið marbletti framan á hálsi, punktblæðingar í andliti og grunn rifsár framan á brjóstkassa.

Heimilislæknir drengsins, sem kom fyrir dóminn sem vitni, bar um að til þess að punktblæðingar mynduðust í andliti þyrfti töluvert tak sem þyrfti að vara í „smá tíma“. Hann sagði jafnframt að alltaf væri hættulegt að taka utan um háls á barni með þessum hætti.

Til mildunar refsingar föðurins var litið til þess að hann hafi sárlega iðrast gerða sinna og lagt sitt af mörkum til þess að málið yrði upplýst. Honum var þó gert að greiða syni sínum 400.000 kr. í miskabætur auk alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert