Útkall vegna manns og barna í sjálfheldu

Björgunarsveit. Mynd úr safni.
Björgunarsveit. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert

Björgunarsveitir á Ísafirði og í Hnífsdal voru kallaðar út vegna manns og tveggja barna sem voru í sjálfheldu ofarlega í Eyrarfjalli ofan við Ísafjörð rétt fyrir klukkan tvö í dag.

Maðurinn var með börnin tvö í fjallinu þar sem jarðvegur er laus og hlíðarnar brattar. Treystu þau sér hvorki til þess að halda áfram upp né niður og voru orðin skelkuð. Rúmlega hálftíma eftir að útkall barst voru fjórtán björgunarsveitarmenn komnir að fólkinu.

Um klukkustund síðar var fólkið komið niður af fjallinu eftir að björgunarsveit hafði aðstoðað þau án mikilla vandkvæða. Maðurinn og börnin voru örlítið köld og hrakin en að öðru leyti eru þau ósködduð.

Fréttin hefur verið uppfærð. Í upphaflegri tilkynningu frá Landsbjörg kom fram að um konu og tvö börn hefði verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert