Leiðsögumaðurinn spurði hvar Fjallabak væri

Ferðamenn á Íslandi.
Ferðamenn á Íslandi. mbl.is/RAX

Hinrik Ólafsson, leiðsögumaður, segist óttast um ímynd íslenskrar ferðaþjónustu í ljósi fjölda leiðsögumanna erlendis frá sem hvorki þekki staðhætti né viðbúnað nægilega vel til þess að fara í jafn umfangsmiklar ferðir um landið og raunin er. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Hinriks.

Hinrik segir það mikið áhyggjuefni hve fáa faglærða leiðsögumenn sé að finna á fjölförnum áfangastöðum víðs vegar um landið. Hann segir að margir af þeim leiðsögumönnum sem hann hafi hitt fyrir á ferðum sínum í sumar hafi verið erlendir „villuráfandi réttindalausir leiðsögumenn“ sem höfðu greinilega litla þekkingu á hvað þeir voru að gera. Sífellt algengara er að erlendar ferðaskrifstofur sendi hingað launalaust óreynda aðila sem ekki þekki til staðarhátta á Íslandi en komi sem leiðsögumenn fyrir ánægjuna af að vera hér. Slíkt atferli ógnar þó öryggi ferðamanna þar sem aðstæður hérlendis eru einstakar og það kostar tíma og þolinmæði að gerast fær í leiðsögn um landið. 

Ferðamenn á Þingvöllum.
Ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hinrik tekur dæmi um slík atvik í færslu sinni og segir aðeins um tvö tilvik af nokkrum sem hann hefur upplifað nýlega að ræða. 

Spurði hvar Fjallabak væri

Annars vegar hafi maður komið með gesti í afgreiðslu afþreyingafyrirtækis og beðið um söluþóknun af viðskiptum gestanna vegna þess að hann hafi áður komið með viðskiptavini á staðinn. Hinrik hafi svo gefið sig á tal við leiðsögumanninn sem sagðist eiga ferðaskrifstofu erlendis og sjá um allar hliðar starfseminnar sjálfur. Hann hafi síðan spurt Hinrik hvort að Fjallabak væri ekki nálægt. Hinrik upplýsti hann þá um að hálendið og Fjallabak þar með væri lokað. Þá spurði leiðsögumaðurinn hvort að Hinrik gæti þá ekki vísað honum að malarvegi svo að ferðamennirnir sem væru með honum í för myndu halda að þeir væru á hálendinu.

Síðar átti Hinrik samtal við annan leiðsögumann á hóteli sem var með hjólahóp sem keyrði á milli staða og hjólaði svo ákveðnar leiðir hluta úr degi. Leiðsögumaðurinn sagði að hópurinn hygðist hjóla frá Öskju meðfram þjóðvegi 1 inn að Dettifossi og þaðan niður í Kelduhverfi. Hinrik reyndi þá að upplýsa manninn um að veður, lokanir og vegalengd byðu ekki upp á slíka ferðaáætlun en maðurinn gaf þó lítið fyrir þá ráðgjöf. Síðar hitti Hinrik svo viðkomandi aðila á öðru hóteli og hafði þá hópurinn neitað að hjóla meira og var ferðinni heitið til Reykjavíkur þremur dögum fyrr en áætlað var.

„Þetta er maður að verða var við meira og meira,“ segir Hinrik í samtali við mbl.is. Hann segir þetta fyrst og fremst vera ímynda- og öryggismál. „Menn eru að reyna að spara sér kostnað við ferðir, á kostnað ferðamanna, öryggis og þekkingar. Ég er búin að vera tuttugu ár í þessum bransa og hef aldrei séð ástandið jafn slæmt og það er núna.“

Hinrik segir furða sig á því að yfirvöld hafi enn ekki sýnt sannfærandi vilja til þess að koma á fót reglugerðum um leiðsögumenn í íslenskri ferðaþjónustu. „Þetta springur í höndunum á okkur. Þetta endar með slysum og slæmu umtali.“

Ferðamenn eru oft illa í stakk búnir fyrir íslenskar aðstæður.
Ferðamenn eru oft illa í stakk búnir fyrir íslenskar aðstæður. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert